Páll og Jakob
17 Þegar við komum til Jerúsalem tóku trúsystkinin[ okkur feginsamlega. 18 Næsta dag gekk Páll með okkur til Jakobs og allir öldungarnir komu þangað. 19 Páll heilsaði þeim og lýsti síðan nákvæmlega öllu sem Guð hafði gert meðal heiðingjanna með þjónustu hans. 20 Þeir vegsömuðu Guð fyrir það sem þeir heyrðu og sögðu við hann: „Þú sérð, bróðir, hve margir tugir þúsunda það eru meðal Gyðinga sem trú hafa tekið og allir eru þeir vandlátir um lögmálið. 21 En þeim hefur verið sagt að þú kennir öllum Gyðingum, sem eru meðal heiðingja, að hverfa frá Móse og segir að þeir skuli hvorki umskera börn sín né fylgja siðum okkar. 22 Hvað á nú að gera? Víst mun það spyrjast að þú sért kominn. 23 Ger því þetta sem við nú segjum þér. Hjá okkur eru fjórir menn sem heit hvílir á. 24 Tak þá með þér, lát hreinsast með þeim og ber kostnaðinn fyrir þá að þeir geti látið raka höfuð sín. Þá mega allir sjá að ekkert er hæft í því sem þeim hefur verið sagt um þig heldur gætir þú lögmálsins sjálfur í breytni þinni. 25 En um heiðingja sem trú hafa tekið höfum við gefið út bréf og ályktað að þeir skuli varast kjöt fórnað skurðgoðum, blóð, kjöt af köfnuðum dýrum og saurlifnað.“
26 Páll tók að sér mennina og lét hreinsast með þeim næsta dag. Síðan gekk hann inn í helgidóminn og gerði kunnugt hvenær hreinsunardagarnir væru á enda og fórnin fyrir hvern þeirra skyldi fram borin.