Páll fer til Jerúsalem

1 Þegar við höfðum slitið okkur frá þeim létum við í haf og héldum beina leið til Kós, daginn eftir til Ródos og þaðan til Patara. 2 Þar hittum við á skip er fara átti til Fönikíu. Stigum við á það og létum í haf. 3 Við höfðum landsýn af Kýpur, létum hana á bakborða og sigldum til Sýrlands og tókum höfn í Týrus. Þar átti skipið að leggja upp farminn. 4 Við leituðum uppi lærisveinana og dvöldumst þar sjö daga. Þeir sögðu Páli af gift andans að hann skyldi ekki halda áfram til Jerúsalem. 5 Að þessum dögum liðnum lögðum við af stað. Fylgdu þeir okkur allir á veg með konum og börnum út fyrir borgina. Við féllum á kné í fjörunni og báðumst fyrir. 6 Þar kvöddumst við. Við stigum á skip en hin sneru aftur heim til sín.
7 Við komum til Ptólemais frá Týrus og lukum þar sjóferðinni. Við heilsuðum trúsystkinunum[ og dvöldumst hjá þeim daglangt. 8 Daginn eftir fórum við þaðan og komum til Sesareu, gengum inn í hús Filippusar trúboða, sem var einn af þeim sjö, og dvöldumst hjá honum. 9 Hann átti fjórar ógiftar dætur, gæddar spádómsgáfu. 10 Þegar við höfðum dvalist þar nokkra daga kom spámaður einn ofan frá Júdeu, Agabus að nafni. 11 Hann kom til okkar, tók belti Páls, batt fætur sína og hendur og mælti: „Svo segir heilagur andi: Þannig munu Gyðingar í Jerúsalem binda þann mann sem þetta belti á og selja hann í hendur heiðingjum.“ 12 Þegar við heyrðum þetta lögðum við og heimamenn að Páli að fara ekki upp til Jerúsalem. 13 En hann sagði: „Hví grátið þið og hrellið hjarta mitt? Ég er eigi aðeins reiðubúinn að láta binda mig heldur og að deyja í Jerúsalem fyrir nafn Drottins Jesú.“ 14 Honum varð eigi talið hughvarf. Þá létum við kyrrt og sögðum: „Verði Drottins vilji.“
15 Að þessum dögum liðnum bjuggumst við til ferðar og héldum upp til Jerúsalem. 16 Nokkrir lærisveinar frá Sesareu urðu okkur samferða. Þeir fóru með okkur til Mnasons nokkurs frá Kýpur, lærisveins frá elstu tíð, og skyldum við gista hjá honum.