Siðbót Nehemía

1 Um þessar mundir var lesið úr bók Móse fyrir fólkið. Þá fannst ritað í henni: „Hvorki Ammóníti né Móabíti má nokkru sinni ganga í söfnuð Guðs 2 af því að þeir færðu Ísraelsmönnum hvorki brauð né vatn. Móab keypti Bíleam til að bölva þeim. En Guð okkar breytti bölvuninni í blessun.“
3 Eftir að hafa hlýtt á lögmálið greindu þeir allt fólk af blönduðum uppruna frá Ísrael.
4 Áður hafði Eljasíb prestur verið settur yfir geymsluherbergið í húsi Guðs okkar. Hann var ættingi Tobía 5 og hafði útbúið handa honum stórt herbergi. Þar hafði áður verið geymt mjöl til kornfórnar, reykelsi og áhöld, einnig hin lögbundnu afgjöld af korni, víni og olíu til Levítanna, söngvaranna og hliðvarðanna og greiðslur til prestanna.
6 Ég var ekki í Jerúsalem þegar allt þetta gerðist því að á þrítugasta og öðru stjórnarári Artaxerxesar Babýloníukonungs hafði ég farið til konungs. En að nokkrum tíma liðnum beiddist ég orlofs af konungi. 7 Þegar ég kom aftur til Jerúsalem komst ég að því hvílíka óhæfu Eljasíb hafði unnið fyrir Tobía með því að búa honum herbergi í forgörðum húss Guðs. 8 Mér mislíkaði þetta mjög og kastaði öllum húsmunum Tobía út úr herberginu á götuna 9 og skipaði að herbergið skyldi hreinsað. Því næst lét ég flytja þangað aftur áhöld húss Guðs, mjölið í kornfórnina og reykelsið.
10 Ég komst einnig að því að framlög til Levítanna höfðu ekki verið innt af hendi og að Levítar og söngvarar, sem gegndu þjónustu, hefðu hrökklast til jarða sinna. 11 Ég ásakaði því embættismennina og spurði: „Hvers vegna er hús Guðs vanrækt?“ Því næst sótti ég Levítana og lét þá gegna störfum sínum að nýju.
12 Allir Júdamenn tóku nú aftur að greiða tíund af korni, víni og olíu í birgðageymslurnar 13 og ég skipaði Selemja prest, Sadók fræðimann og Pedaja, einn af Levítunum, yfir birgðageymslurnar. Þeim til aðstoðar skipaði ég Hanan Sakkúrsson, Mattanjasonar. Þeir voru taldir traustir menn og þeim bar að skipta tíundinni á meðal starfsbræðra sinna.
14 Guð minn, minnstu mín vegna þessa. Afmáðu ekki þau góðu verk sem ég hef unnið fyrir hús Guðs míns og þjónustuna í því.