40 Nú tóku báðir kórarnir sér stöðu við hús Guðs sem og ég og helmingur embættismannanna sem með mér var. 41 Eins gerðu prestarnir Eljakím, Maaseja, Minjamín, Míkaja, Eljóenaí, Sakaría og Hananja, sem voru með lúðrana, 42 og Maaseja, Semaja, Eleasar, Ússí, Jóhanan, Malkía, Elam og Eser. Þá létu söngvararnir í sér heyra undir stjórn Jisrahja.
43 Þennan dag voru færðar miklar sláturfórnir og allir glöddust því að Guð hafði veitt þeim mikla gleði. Konur og börn tóku einnig þátt í gleðinni og gleðiglaumurinn frá Jerúsalem heyrðist langt að.

Framlög til guðsþjónustunnar í musterinu

44 Um þessar mundir voru menn settir yfir geymsluherbergin sem ætluð voru fyrir afgjöld, framlög af frumgróða og tíundir. Framlögum til presta og Levíta af ökrum borganna, sem þeim voru ætluð samkvæmt lögmálinu, var safnað í þessi geymsluherbergi því að Júdamenn glöddust yfir prestunum og Levítunum sem gegndu guðsþjónustunni. 45 Þeir gegndu þjónustunni við Guð sinn og önnuðust hreinsunarathafnirnar. Söngvararnir og hliðverðirnir störfuðu einnig samkvæmt fyrirmælum Davíðs og Salómons, sonar hans, 46 því að áður fyrr, á dögum Davíðs og Asafs, höfðu söngvararnir stjórnendur þegar Guði voru fluttir lofgjörðar- og þakkarsálmar.
47 Á dögum Serúbabels og eins á dögum Nehemía greiddu allir Ísraelsmenn daglega framlög til söngvara og hliðvarða eftir því sem þörf var á. Þeir helguðu Levítunum einnig ákveðið framlag og Levítarnir helguðu niðjum Arons hluta þeirra.