22 En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, 23 en svo er ritað í lögmáli Drottins: „Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni,“ 24 og til að bera fram fórn, eins og segir í lögmáli Drottins, „tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur“.

25 Þá var í Jerúsalem maður er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti þess að Guð frelsaði Ísrael. Heilagur andi var yfir honum 26 og hafði hann vitrað honum að hann skyldi ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. 27 Að leiðsögn andans kom hann í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins 28 tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:
29 Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara
eins og þú hefur heitið mér
30 því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,
31 sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,
32 ljós til opinberunar heiðingjum
og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.

33 Faðir hans og móðir undruðust það er sagt var um hann.