Hann á að vaxa

22 Eftir þetta fóru Jesús og lærisveinar hans út í Júdeuhérað. Þar dvaldist hann með þeim og skírði. 23 Jóhannes var líka að skíra í Aínon nálægt Salím en þar var mikið vatn. Menn komu þangað og létu skírast. 24 Þá var ekki enn búið að varpa Jóhannesi í fangelsi.
25 Nú varð deila um hreinsun milli lærisveina Jóhannesar og Gyðings eins. 26 Þeir komu til Jóhannesar og sögðu við hann: „Rabbí, sá sem var hjá þér handan Jórdanar og þú barst vitni um, hann er að skíra og allir koma til hans.“
27 Jóhannes svaraði þeim: „Enginn getur tekið neitt nema Guð gefi honum það. 28 Þið getið sjálfir vitnað um að ég sagði: Ég er ekki Kristur heldur er ég sendur á undan honum. 29 Sá er brúðguminn sem á brúðina en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu. 30 Hann á að vaxa en ég að minnka.“

Sá sem kemur að ofan

31 Sá sem kemur að ofan er yfir öllum. Sá sem er af jörðu, hann er af jörðu og talar eins og menn. Sá sem kemur af himni er yfir öllum og 32 vitnar um það sem hann hefur séð og heyrt og enginn tekur á móti vitnisburði hans. 33En sá sem hefur tekið á móti vitnisburði hans hefur staðfest að Guð sé sannorður. 34 Sá sem Guð sendi talar Guðs orð því ómælt gefur Guð andann. 35 Faðirinn elskar soninn og hefur lagt allt í hönd honum. 36 Sá sem trúir á soninn hefur eilíft líf en sá sem óhlýðnast syninum mun ekki öðlast líf heldur varir reiði Guðs yfir honum.