28 Um leið og þeir fengu frið
frömdu þeir aftur illvirki fyrir augliti þínu.
Þú yfirgafst þá í greipum fjandmanna sinna
og þeir kúguðu þá.
Þá hrópuðu þeir aftur til þín
og þú bænheyrðir þá af himni.
Þú bjargaðir þeim margsinnis af miskunn þinni.
29 Þú áminntir þá um að snúa aftur til lögmáls þíns
en þeir voru hrokafullir
og hlýddu ekki boðum þínum.
Þeir syndguðu gegn fyrirmælum þínum
en hver sá hlýtur líf sem breytir eftir þeim.
En þeir sneru baki við þér í þverúð
og urðu harðsvíraðir og hlýddu ekki.
30 Þú sýndir þeim þolinmæði í mörg ár
og varaðir þá við með anda þínum
fyrir munn spámanna þinna
en þeir hlustuðu ekki.
Þá framseldir þú þá í hendur þjóðum
í öðrum löndum.
31 En vegna þinnar miklu miskunnsemi
tortímdir þú þeim ekki
og þú yfirgafst þá ekki
því að þú ert náðugur og miskunnsamur Guð.
32 Guð vor, þú mikli, voldugi og ógurlegi Guð.
Þú sem heldur sáttmálann í trúfesti.
Lítilsvirtu ekki allt það harðræði
sem vér höfum þolað,
konungar vorir og höfðingjar,
prestar og spámenn,
feður vorir og öll þjóð þín,
frá dögum Assýríukonunga
og allt til þessa dags.
33 Þú varst réttlátur í öllu sem yfir oss kom
því að þú sýndir trúfesti þegar vér breyttum óguðlega.
34 Já, konungar vorir, höfðingjar, prestar og feður
fóru ekki eftir lögmáli þínu.
Þeir gáfu hvorki gaum boðum þínum né viðvörunum
sem þú gafst þeim.
35 Þegar þeir bjuggu í eigin konungsríki,
í velsæld sem þú veittir þeim,
í víðu og frjósömu landi sem þú gafst þeim,
þjónuðu þeir þér ekki
og létu ekki af illum verkum sínum,
36 þess vegna erum vér þrælar nú í dag.
Þú gafst feðrum vorum landið
til þess að þeir nytu ávaxta þess og auðs,
en vér erum þrælar í því.
37 Ríkulegir ávextir þess
fara til konunga sem þú settir yfir oss vegna þess að vér syndguðum.
Þeir drottna yfir líkömum vorum og fénaði
að eigin geðþótta.
Þess vegna þrengir að oss.