22 Þú gafst þeim konungsríki og þjóðir
og úthlutaðir þeim sem landamærahéruðum.
Þannig tóku þeir land Síhons
og land konungsins af Hesbon
og land Ógs, konungs í Basan.
23 Þú gerðir niðja þeirra
jafnmarga stjörnum himinsins
og leiddir þá inn í landið
sem þú hafðir heitið feðrum þeirra
að þeir skyldu komast inn í og taka til eignar.
24 Niðjar þeirra komu og tóku landið til eignar
og þú lagðir undir þá íbúa landsins, Kanverjana.
Þú seldir þá í hendur þeirra
ásamt konungum þeirra og öðrum íbúum landsins
svo að þeir gætu farið með þá að vild.
25 Þeir unnu víggirtar borgir og frjósama akra,
tóku til eignar vel búin hús,
úthöggna brunna, víngarða og ólífutré og fjölmörg ávaxtatré.
Þeir átu, urðu mettir og fitnuðu
og lifðu í velsæld af þínum ríkulegu gjöfum.
26 En þeir þrjóskuðust og gerðu uppreisn gegn þér
og sneru baki við lögmáli þínu.
Þeir drápu spámenn þína sem áminntu þá
og vildu leiða þá aftur til þín.
Þá guðlöstuðu þeir mjög.
27 Þú seldir þá í hendur fjandmanna þeirra
og þeir kúguðu þá.
Í nauðum hrópuðu þeir til þín
og þú bænheyrðir þá af himni.
Þú sendir þeim frelsara af mikilli miskunn þinni
og þeir björguðu þeim úr höndum kúgara þeirra.