9Þú sást eymd feðra vorra í Egyptalandi
og heyrðir neyðaróp þeirra við Sefhafið.
10Þú gerðir tákn og undur gegn faraó
og öllum mönnum hans og allri þjóðinni í landi hans
því að þú vissir að þeir hreyktu sér gegn Ísraelsmönnum
og þú ávannst þér það nafn
sem þú berð nú í dag.
11Þú klaufst hafið fyrir framan þá
svo að þeir gengu á þurru mitt í gegnum hafið
en þeim sem eltu þá steyptir þú í djúpið
eins og steini í ólgandi vatnsflaum.
12Þú leiddir þá í skýstólpa um daga
og í eldstólpa um nætur
til þess að lýsa fyrir þá veginn
sem þeir áttu að ganga.
13Þú steigst niður á Sínaífjall
og ávarpaðir þá frá himni.
Þú gafst þeim skýr fyrirmæli
og traust lög,
góð boð og ákvæði,
14boðaðir þeim hinn heilaga hvíldardag þinn
og ákvæði, boð og lög
fékkstu þeim fyrir munn Móse, þjóns þíns.
15Þú gafst þeim brauð af himni
til að seðja hungur þeirra,
lést vatn streyma úr kletti
til að slökkva þorsta þeirra.
Þú skipaðir þeim að koma
og taka það land til eignar
sem þú hafðir svarið að gefa þeim
með upplyftri hendi.
16En þeir, feður vorir, fylltust hroka,
urðu harðsvíraðir og hlýddu ekki boðum þínum.
17Þeir vildu ekki hlýða
og minntust ekki máttarverka þinna sem þú vannst fyrir þá.
Þeir þverskölluðust og einsettu sér
að halda aftur í þrælkunina í Egyptalandi.
En þú ert Guð sem fyrirgefur,
náðugur og miskunnsamur,
seinn til reiði og gæskuríkur
og þú yfirgafst þá ekki.
18Þeir gerðu sér meira að segja steyptan kálf
og sögðu: „Þetta er Guð þinn sem leiddi þig út úr Egyptalandi,“
og guðlöstuðu ákaflega.
19En þrátt fyrir þetta yfirgafstu þá ekki í eyðimörkinni
vegna þinnar miklu miskunnsemi:
skýstólpinn vék ekki frá þeim
heldur leiddi þá um daga
og eldstólpinn um nætur
til að lýsa þeim veginn
sem þeir áttu að ganga.
20Þú gafst þeim þinn góða anda til að auka þeim skilning.
Þú lést þá ekki skorta manna
og þú gafst þeim vatn til að slökkva þorstann.
21Þú ólst önn fyrir þeim í fjörutíu ár,
þá skorti ekkert í eyðimörkinni:
klæði þeirra slitnuðu ekki
og fætur þeirra þrútnuðu ekki.