8. kafli

Laufskálahátíð

13 Á öðrum degi söfnuðust ættarhöfðingjar allrar þjóðarinnar, prestarnir og Levítarnir saman hjá Esra fræðimanni til þess að kynnast fyrirmælum lögmálsins. 14 Þá komust þeir að því að það var skráð í lögmálinu, sem Drottinn hafði boðið þeim fyrir munn Móse, að Ísraelsmenn ættu að búa í laufskálum á hátíðinni í sjöunda mánuðinum. 15 Þegar þeir heyrðu þetta létu þeir kunngjöra það og kalla út í öllum borgum sínum og í Jerúsalem:
„Farið upp í fjalllendið og sækið greinar af ræktuðum og villtum olíuviði, myrtu, pálmum og öðrum lauftrjám til að gera laufskála, eins og skráð er.“
16 Fólkið fór, sótti trjágreinar og gerði sér laufskála, hver á sínu húsþaki og í húsagörðum sínum, í forgörðum húss Guðs, á torginu við Vatnshliðið og á torginu við Efraímshliðið. 17Allur söfnuðurinn, þeir sem snúið höfðu heim úr útlegðinni, gerði laufskála og bjó í þeim. Ísraelsmenn höfðu ekki gert þetta frá því á dögum Jósúa Núnssonar allt til þessa dags. Mikil gleði ríkti 18 og Esra las daglega upp úr lögmálsbók Guðs, frá fyrsta degi til hins síðasta. Hátíðin stóð í sjö daga. Á áttunda degi var hátíðarsamkoma eins og fyrirskipað var.

9. kafli

Fólkið játar syndir sínar

1 Tuttugasta og fjórða dag þessa mánaðar söfnuðust Ísraelsmenn saman og föstuðu, klæddir hærusekk og með mold á höfði. 2 Niðjar Ísraels greindu sig frá öllum þeim sem voru af öðru þjóðerni, gengu fram og játuðu syndir sínar og afbrot feðra sinna 3 og tóku sér stöðu á sínum stað. Fjórðung dagsins var lesið úr lögmálsbók Drottins, Guðs þeirra, og annan fjórðung játuðu þeir syndir sínar og féllu fram fyrir Drottni, Guði sínum.
4 Jesúa, Baní, Kadmíel, Sebanja, Búnní, Serebja, Banní og Kenaní stóðu á Levítapallinum og hrópuðu hárri röddu til Drottins, Guðs síns. 5 Levítarnir Jesúa, Kadmíel, Baní, Hasabneja, Serebja, Hódía, Sebanja og Patahja sögðu: „Rísið upp og lofið Drottin, Guð ykkar, ævinlega. Lofað sé þitt dýrlega nafn þó að það sé hafið yfir alla lofgjörð og þökk.“

Beðið fyrir þjóðinni

6Þú ert Drottinn, þú einn.
Þú hefur gert himininn,
himin himinsins og allan hans her,
jörðina og allt sem á henni er,
höfin og allt sem í þeim er.
Þú fyllir þau öll lífi
og himinsins her sýnir þér lotningu.
7Þú, Drottinn, ert Guð.
Þú sem valdir Abram.
Þú leiddir hann frá Úr í Kaldeu
og gafst honum nafnið Abraham.
8Þú reyndir hjarta hans að trúfesti við þig,
þess vegna gerðir þú við hann þann sáttmála
að gefa niðjum hans land
Kanverja, Hetíta, Amoríta,
Peresíta, Jebúsíta og Gírgasíta.
Þú hefur efnt fyrirheit þitt
því að þú ert réttlátur.