24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land
og treystu ekki orðum hans,
25 mögluðu í tjöldum sínum
og hlýddu ekki á boð Drottins.
26 Þá hóf hann hönd sína gegn þeim
til að fella þá í eyðimörkinni,
27 fella niðja þeirra meðal framandi þjóða
og dreifa þeim um löndin.
28 Þeir gengu Baal Peór á hönd
og neyttu þess sem dauðum goðum var fórnað.
29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu
og því braust út plága meðal þeirra.
30 Þá gekk Pínehas fram og kvað upp dóm
og létti þá plágunni.
31 Þetta var reiknað honum til réttlætis,
frá kyni til kyns, ævinlega.
32 Þeir reittu hann til reiði við Meríbavötn
og Móse varð fyrir mótlæti þeirra vegna
33 því að þeir risu gegn vilja hans
og honum hrutu vanhugsuð orð af vörum.
34 Þeir eyddu eigi þjóðunum
eins og Drottinn hafði boðið þeim
35 heldur lögðu lag sitt við aðrar þjóðir
og tóku upp hætti þeirra.
36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra
og þau urðu þeim að fótakefli.
37 Þeir færðu illum vættum syni sína og dætur að fórn,
38 úthelltu saklausu blóði,
blóði sona sinna og dætra
sem þeir fórnuðu goðum Kanaans
svo að landið vanhelgaðist af blóðinu.
39 Þeir saurguðust af verkum sínum
og frömdu tryggðarof með athæfi sínu.