Endurreisn múra Jerúsalem

1 Eljasíb æðsti prestur og hinir prestarnir, embættisbræður hans, hófu verkið og endurreistu Sauðahliðið. Þeir endurnýjuðu það og komu vængjahurðum fyrir í því. Þeir héldu áfram að Hundraðmannaturni og þaðan að Hananelturni.
2 Við hlið þeirra unnu menn frá Jeríkó að byggingunni og við þeirra hlið Sakkúr Imríson.
3 Synir Senaa endurreistu Fiskhliðið. Þeir komu fyrir bjálkum og vængjahurðum, lás og slagbröndum.
4 Við hlið þeirra vann að viðgerðinni Meremót Úríason, Hakkóssonar. Næstur honum vann Mesúllam Berekíason, Mesesabeelssonar, að viðgerðinni. Við hliðina á honum Sadók Baanason.
5 Við hliðina á honum unnu menn frá Tekóa að viðgerðinni en aðalsmennirnir á meðal þeirra vildu ekki beygja svírann og þjóna herra sínum.
6 Jójada Paseason og Mesúllam Besódíason gerðu við Jesanahliðið. Þeir komu fyrir bjálkum, vængjahurðum, lás og slagbröndum.
7 Við hlið þeirra vann Melatja frá Gíbeon að viðgerðinni ásamt Jadón frá Merónót og mönnum frá Gíbeon og Mispa þar sem var aðsetur landstjóra skattlandsins handan Fljóts.
8 Við hlið þeirra vann Ússíel Harhajason, einn af gullsmiðunum, að viðgerðinni og næstur honum Hananja, einn af smyrslagerðarmönnunum. Þeir víggirtu Jerúsalem að breiða múrnum.
9 Við hlið þeirra vann Refaja Húrsson sem stjórnaði hálfu Jerúsalemhéraði.
10 Við hlið hans vann Jedaja Harúmafsson að viðgerðinni gegnt húsi sínu, næstur honum Hattús Hasabnejason.
11 Malkía Harímsson og Hasúb Pahat Móabsson gerðu við múrinn á öðrum stað svo og Ofnturninn.
12 Við hlið þeirra vann Sallúm Hallóhesson að viðgerðinni, sá sem stjórnaði hinum helmingi Jerúsalemhéraðs. Dætur hans unnu með honum.