Nehemía skoðar múrana

11 Eftir að ég kom til Jerúsalem var ég um kyrrt í þrjá daga. 12 Þá fór ég á fætur að næturlagi ásamt fáeinum mönnum en skýrði ekki nokkrum manni frá því hverju Guð minn hafði blásið mér í brjóst að gera fyrir Jerúsalem.[ Engin skepna var með mér önnur en sú sem ég hafði til reiðar.
13 Ég fór út um Dalshliðið að næturlagi, fram hjá Drekalind og að Öskuhliðinu og athugaði á leiðinni múra Jerúsalemborgar en þeir höfðu verið rifnir niður og hlið hennar brennd í eldi. 14Síðan fór ég yfir að Lindarhliðinu og Konungstjörninni en þá þrengdi svo að skepnunni sem ég reið að hún komst ekki lengra. 15 Ég gekk því upp dalinn um nóttina og hugaði að múrunum á leiðinni. Þá fór ég aftur um Dalshliðið og hélt heim.
16 Ráðamenn vissu hvorki hvert ég hafði farið né hvað ég hafði haft fyrir stafni. Fram að þessu hafði ég ekki sagt Gyðingunum neitt, hvorki prestum, höfðingjum, ráðamönnum né öðrum embættismönnum. 17 En nú sagði ég við þá: „Þið sjáið sjálfir þá eymd sem við búum við. Jerúsalem er í rúst og hlið hennar hafa verið brennd í eldi. Hefjumst nú handa. Við skulum endurreisa múra Jerúsalem, þá búum við ekki lengur við þessa niðurlægingu.“
18 Því næst skýrði ég þeim frá því með hvílíkri gæsku hönd Guðs míns hefði hvílt yfir mér og eins hverju konungur hefði heitið mér. Þá svöruðu þeir: „Hefjumst handa við að byggja.“ Síðan tóku þeir til við þetta góða verk.
19 Þegar Sanballat Hóroníti, Tobía frá Ammón, embættismaður konungs, og Gesem Arabi fréttu þetta hæddu þeir okkur og spurðu fyrirlitlega: „Hvað er þetta sem þið eruð að gera? Ætlið þið að gera uppreisn gegn konungi?“ 20 Ég svaraði þeim og sagði: „Guð himinsins mun láta okkur takast þetta. Við, þjónar hans, munum hefjast handa við endurreisnina. En þið eigið hvorki hlutdeild né rétt í Jerúsalem og enginn minnist ykkar þar.“