Nehemía fer til Jerúsalem

1 Í nísanmánuði, á tuttugasta stjórnarári Artaxerxesar konungs, þegar ég sá um vínföngin, tók ég vínið og rétti konungi. Konungur hafði ekki séð mig niðurdreginn áður 2 svo að hann spurði: „Hvers vegna ertu svona dapur í bragði? Þú ert þó ekki veikur? Eitthvað hlýtur að hvíla á þér.“[
Ég varð mjög hræddur 3 en svaraði konungi: „Konungur lifi ævinlega. Hvers vegna skyldi ekki liggja illa á mér? Borgin, sem geymir grafir feðra minna, er í rúst og hlið hennar hafa verið brennd í eldi.“
4 Konungur spurði: „Hvers beiðistu þá?“
Ég gerði bæn mína til Guðs himinsins 5 og svaraði því næst konungi: „Ef þú, konungur, telur það rétt, og ef þú telur þjón þinn færan um það, sendu mig þá til Júda, til borgarinnar sem geymir grafir feðra minna, svo að ég geti endurreist hana.“
6 Þá spurði konungur – en við hlið honum sat drottning: „Hve lengi verður þú fjarverandi? Hvenær kemurðu aftur?“
Konungi þóknaðist að senda mig þegar ég hafði tiltekið við hann ákveðinn tíma.
7 Því næst sagði ég við konung: „Telji konungur rétt ætti að fá mér bréf til landstjóranna í skattlandinu handan fljóts[ til þess að þeir leyfi mér að fara yfir lönd sín og ég komist alla leið til Júda. 8 Einnig ætti að fá mér bréf til Asafs, konunglegs skógarvarðar, til þess að hann fái mér við til að gera bjálka í hlið musterisvirkisins, borgarmúrana og húsið sem ég mun búa í.“
Konungur gerði þetta þar sem Guð hélt verndarhendi yfir mér.
9 Þegar ég kom til landstjóranna í skattlandinu handan fljóts afhenti ég þeim bréf konungs. Konungur hafði sent með mér liðsforingja og riddara. 10 Þegar Sanballat frá Hóron og Tobía, konungsþjónn frá Ammón, fréttu þetta þótti þeim mjög miður að kominn væri maður sem ætlaði að gæta hagsmuna Ísraelsmanna.