Í Efesus

1 Meðan Apollós var í Korintu fór Páll um upplöndin og kom til Efesus. Þar hitti hann fyrir nokkra lærisveina. 2 Hann sagði við þá: „Fenguð þið heilagan anda er þið tókuð trú?“
Þeir svöruðu: „Nei, við höfum ekki einu sinni heyrt að heilagur andi sé til.“
3 Hann sagði: „Upp á hvað eruð þið þá skírðir?“
Þeir sögðu: „Skírn Jóhannesar.“
4 Þá mælti Páll: „Jóhannes skírði iðrunarskírn og sagði fólkinu að trúa á þann sem eftir sig kæmi, það er á Jesú.“
5 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta létu þeir skírast til nafns Drottins Jesú. 6 Er Páll hafði lagt hendur yfir þá kom heilagur andi yfir þá og þeir töluðu tungum og fluttu spámannlegan boðskap. 7 Þessir menn voru alls um tólf.
8 Páll sótti nú samkunduna í þrjá mánuði og talaði þar djarflega og reyndi að sannfæra menn um Guðs ríki. 9 En nokkrir brynjuðu sig og vildu ekki trúa. Þegar þeir tóku að illmæla veginum í áheyrn fólksins sagði Páll skilið við þá, greindi lærisveinana frá þeim og síðan talaði hann daglega í skóla Týrannusar. 10 Þessu fór fram í tvö ár svo að allir þeir sem í Asíu bjuggu heyrðu orð Drottins, bæði Gyðingar og Grikkir.

Synir Skeva

11 Guð gerði óvenjuleg kraftaverk fyrir hendur Páls. 12 Það bar við að menn lögðu dúka og flíkur af Páli á sjúka og hurfu þá veikindi þeirra og illir andar fóru út af þeim.
13 En nokkrir Gyðingar, er fóru um og frömdu andasæringar, tóku og fyrir að nefna nafn Drottins Jesú yfir þeim er haldnir voru illum öndum. Þeir sögðu: „Ég særi ykkur við Jesú þann sem Páll prédikar.“ 14 Þetta reyndu einnig sjö synir Gyðings nokkurs, Skeva æðsta prests.
15 En illi andinn sagði við þá: „Jesú þekki ég og Pál kannast ég við en hverjir eruð þið?“
16 Maðurinn, sem illi andinn var í, flaug á þá, keyrði þá alla undir sig og lék þá svo hart að þeir flýðu naktir og særðir úr húsinu. 17 Þetta varð kunnugt öllum Efesusbúum, bæði Gyðingum og Grikkjum, og ótta sló á þá alla og þeir vegsömuðu mikillega nafn Drottins Jesú. 18 Margir þeirra sem trú höfðu tekið komu, gerðu játningu og sögðu frá athæfi sínu. 19 Og allmargir, er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi. Þær voru samtals virtar á fimmtíu þúsundir silfurpeninga. 20 Þannig breiddist orð Drottins út og efldist í krafti hans.

Æsingar í Efesus

21 Þá er þetta var um garð gengið tók Páll þá ákvörðun að ferðast um Makedóníu og Akkeu og fara síðan til Jerúsalem. Hann sagði: „Þegar ég hef verið þar ber mér líka að sjá Róm.“ 22 Hann sendi tvo aðstoðarmenn sína, þá Tímóteus og Erastus, til Makedóníu en dvaldist sjálfur í Asíu um sinn.