Til Sýrlands

18 Páll var þar enn um kyrrt allmarga daga, kvaddi síðan bræðurna og systurnar[ og sigldi til Sýrlands og með honum Priskilla og Akvílas. Lét hann áður skera hár sitt[ í Kenkreu því að heit hafði hvílt á honum. 19 Þau komu til Efesus. Þar skildi hann við þau en gekk sjálfur inn í samkunduhúsið og ræddi við Gyðinga. 20 Þeir báðu hann að standa lengur við en hann varð ekki við því 21 heldur kvaddi þá og sagði: „Ég skal koma aftur til ykkar ef Guð lofar.“ Síðan lét hann í haf frá Efesus, 22 lenti í Sesareu, fór upp eftir til Jerúsalem og heilsaði söfnuðinum. Síðan hélt hann norður til Antíokkíu. 23 Þegar hann hafði dvalist þar um hríð hélt hann af stað og fór eins og leið liggur um Galataland og Frýgíu og styrkti alla lærisveinana.

Apollós

24 En Gyðingur nokkur, Apollós að nafni, ættaður frá Alexandríu, kom til Efesus. Hann var maður vel máli farinn og fær í ritningunum. 25 Hann hafði verið fræddur um veg Drottins og brennandi í andanum talaði hann og kenndi kostgæfilega um Jesú. Þó þekkti hann aðeins skírn Jóhannesar. 26 Þessi maður tók nú að tala skörulega í samkunduhúsinu. Priskilla og Akvílas heyrðu til hans, tóku hann að sér og skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg. 27 Nú fýsti hann að fara yfir til Akkeu. Kristnir menn[ í Efesus rituðu lærisveinunum þar og hvöttu þá að taka honum vel. Hann kom þangað og varð til mikillar hjálpar þeim sem fyrir Guðs náð höfðu tekið trú því að 28 hann hrakti skarplega rök Gyðinga í allra áheyrn og sannaði af ritningunum að Jesús væri Kristur.