1Hallelúja.
Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.
2Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins,
kunngjört allan lofstír hans?
3Sælir eru þeir sem gæta réttarins,
sem iðka réttlæti alla tíma.
4Minnstu mín, Drottinn,
er þú miskunnar lýð þínum,
vitja mín með hjálpræði þínu.
5Lát mig sjá heill þinna útvöldu,
gleðjast með þjóð þinni
og fagna með eignarlýð þínum.
6Vér höfum syndgað eins og feður vorir,
höfum breytt illa og óguðlega.
7Feður vorir í Egyptalandi gáfu ekki gaum að undrum þínum,
minntust ekki mikillar miskunnar þinnar
en risu gegn Hinum hæsta við Sefhafið.
8Hann bjargaði þeim vegna nafns síns
til að kunngjöra mátt sinn.
9Hann hastaði á Sefhafið og það þornaði,
leiddi þá yfir djúpin eins og um eyðimörk.
10Hann bjargaði þeim úr greipum hatursmanna þeirra,
leysti þá úr óvinahöndum.
11Vötnin huldu ofsækjendur þeirra,
enginn þeirra komst undan.
12Þá treystu þeir orðum hans
og sungu honum lof.