Í Filippí

11 Nú lögðum við út frá Tróas, sigldum beint til Samóþrake en daginn eftir til Neapólis 12 og þaðan til Filippí. Hún er helsta borg í þessum hluta Makedóníu, rómversk nýlenda. Í þeirri borg dvöldumst við nokkra daga. 13 Hvíldardaginn gengum við út fyrir hliðið að á einni en þar hugðum við vera bænastað. Settumst við niður og töluðum við konurnar sem voru þar saman komnar. 14 Kona nokkur úr Þýatíruborg, sem sótti samkundu Gyðinga, Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði Drottinn hjarta hennar og hún tók við því sem Páll sagði. 15 Hún var skírð og heimili hennar og hún bað okkur: „Gangið inn í hús mitt og dveljist þar fyrst þið teljið mig trúa á Drottin.“ Þessu fylgdi hún fast fram.
16 Eitt sinn, er við gengum til bænastaðarins, mætti okkur ambátt nokkur sem hafði spásagnaranda og aflaði húsbændum sínum mikils gróða með því að spá. 17 Hún elti Pál og okkur og hrópaði: „Menn þessir eru þjónar Guðs hins hæsta og boða þeir ykkur veg til hjálpræðis!“ 18 Þetta gerði hún dögum saman. Páli féll það illa. Loks sneri hann sér við og sagði við andann: „Ég býð þér í nafni Jesú Krists að fara út af henni.“ Og hann fór út á samri stundu.
19 Um leið og húsbændur hennar sáu að þar fór ábatavon þeirra gripu þeir Pál og Sílas og drógu þá út á torgið fyrir valdsmennina. 20 Þeir færðu þá til höfuðsmannanna og sögðu: „Menn þessir valda mestu óspektum í borg okkar. Þeir eru Gyðingar 21 og boða siði sem okkur, rómverskum mönnum, leyfist hvorki að taka upp né fylgja.“ 22 Múgurinn réðst og gegn þeim og höfuðsmennirnir létu fletta þá klæðum og skipuðu að húðstrýkja þá. 23 Þegar þeir höfðu lostið þá mörg högg vörpuðu þeir þeim í fangelsi og buðu fangaverðinum að gæta þeirra vandlega. 24 Þegar hann hafði fengið slíka skipun varpaði hann þeim í innsta fangelsið og felldi stokk á fætur þeim.