15. kafli

Páll og Barnabas skilja

36 Eftir nokkra daga sagði Páll við Barnabas: „Förum nú aftur og vitjum trúsystkinanna[ í hverri borg þar sem við höfum boðað orð Drottins og sjáum hvað þeim líður.“ 37 Barnabas vildi þá líka taka með Jóhannes er kallaður var Markús. 38 En Páli þótti eigi rétt að taka með þann mann er skilið hafði við þá í Pamfýlíu og ekki gengið að verki með þeim. 39 Varð þeim mjög sundurorða og skildi þar með þeim. Tók Barnabas Markús með sér og sigldi til Kýpur. 40 En Páll kaus sér Sílas og fór af stað og fól söfnuðurinn hann náð Drottins. 41 Fór hann um Sýrland og Kilikíu og styrkti söfnuðina.

16. kafli

Tímóteus

1 Páll kom til Derbe og Lýstru. Þar var lærisveinn nokkur, Tímóteus að nafni, sonur trúaðrar konu af Gyðinga ætt en faðir hans var grískur. 2 Kristnir menn[ í Lýstru og Íkóníum báru honum gott orð. 3 Páll vildi hafa hann með sér og umskar hann sökum Gyðinga er voru í þeim byggðum því að allir vissu þeir að faðir hans var grískur.
4 Þeir fóru nú um borgirnar, fluttu mönnum þær ályktanir sem postularnir og öldungarnir í Jerúsalem höfðu samþykkt og buðu að varðveita þær. 5 En söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi.

Til Makedóníu

6 Þeir fóru um Frýgíu og Galataland því heilagur andi varnaði þeim að boða orðið í Asíu. 7Og sem þeir voru komnir að Mýsíu reyndu þeir að fara til Biþýníu en andi Jesú leyfði það eigi. 8 Þeir fóru þá um Mýsíu og komu niður til Tróas. 9 Um nóttina birtist Páli sýn: Maður nokkur makedónskur stóð hjá honum og bað hann: „Kom yfir til Makedóníu og hjálpa okkur!“ 10 En jafnskjótt og hann hafði séð þessa sýn leituðum við færis að komast til Makedóníu þar sem við skildum að Guð hafði kallað okkur til þess að flytja þeim fagnaðarerindið.