14. kafli

Páll og Barnabas snúa aftur til Antíokkíu

21 Þegar þeir höfðu boðað fagnaðarerindið í Derbe og gert marga að lærisveinum sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu, 22 styrktu lærisveinana og hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni. Þeir sögðu: „Við verðum að þola margar þrautir áður en við komumst inn í Guðs ríki.“ 23 Þeir völdu þeim öldunga í hverjum söfnuði, fólu þá síðan með föstum og bænahaldi Drottni sem þeir höfðu fest trú á.
24 Þá fóru þeir um Pisidíu og komu til Pamfýlíu. 25 Þeir fluttu orðið í Perge, fóru til Attalíu 26og sigldu þaðan til Antíokkíu en þar höfðu þeir verið faldir náð Guðs til þess verks sem þeir höfðu nú fullnað.
27 Þegar þeir voru þangað komnir stefndu þeir saman söfnuðinum og greindu frá hversu mikið Guð hafði látið þá gera og að hann hefði opnað heiðingjum dyr trúarinnar. 28 Dvöldust þeir nú alllengi þar hjá lærisveinunum.

15. kafli

Postulafundurinn í Jerúsalem

1 Þá komu menn sunnan frá Júdeu og kenndu bræðrunum: „Ef þið látið ekki umskerast að sið Móse getið þið ekki frelsast.“ 2 Varð mikil misklíð og þræta milli þeirra og Páls og Barnabasar og réðu menn af að Páll og Barnabas og nokkrir þeirra aðrir færu á fund postulanna og öldunganna upp til Jerúsalem vegna þessa ágreinings.
3 Söfnuðurinn bjó síðan ferð þeirra og fóru þeir um Fönikíu og Samaríu og sögðu að einnig heiðingjar hefðu snúið sér til Guðs og vöktu mikinn fögnuð meðal allra trúaðra.
4 Þegar þeir komu til Jerúsalem tók söfnuðurinn á móti þeim og postularnir og öldungarnir og skýrðu þeir frá hversu mikið Guð hefði látið þá gera. 5 Þá risu upp nokkrir úr flokki farísea er trú höfðu tekið og sögðu: „Þá ber að umskera og bjóða þeim að halda lögmál Móse.“
6 Postularnir og öldungarnir komu nú saman til að líta á mál þetta. 7 Eftir mikla umræðu reis Pétur upp og sagði við þá: „Bræður, þið vitið að fyrir löngu valdi Guð mig úr ykkar hópi til að boða heiðingjum fagnaðarerindið svo að þeir fengju að heyra það og taka trú. 8 Og Guð, sem hjörtun þekkir, bar þeim vitni er hann gaf þeim heilagan anda eins og okkur. 9 Engan mun gerði hann á okkur og þeim er hann hreinsaði hjörtu þeirra með trúnni. 10 Hví freistið þið nú Guðs með því að leggja þær byrðar á lærisveinana er hvorki feður vorir né við megnuðum að bera? 11 Við trúum þó því að við verðum hólpnir fyrir náð Drottins Jesú á sama hátt og þeir.“