Amity prentsmiðjan í Nanjing í Kína er stærsta Biblíuprentsmiðja heims og fyrir ári síðan, 11. nóvember 2019, kom Biblíueintak númer 200.000.000 af færibandinu. Á 25 ára afmæli prentsmiðjunnar 2012 var því fagnað að prentsmiðjan hefði prentað 100 milljón eintök og sjö árum síðar hafði magnið tvöfaldast.

Fulltrúar Sameinuðu biblíufélagana (UBS) og leiðtogar úr kínverskum söfnuðum voru viðstaddir í nóvember þegar 200 milljónasta Biblían kom af færibandinu hjá Amity prentsmiðjunni. Melissa Lipsett fulltrúi Ástralska biblíufélagsins hafði orð á því hversu vel hefði tekist um samstarf milli, kirkna í Kína, Amity prentsmiðjunnar og kirkjunnar um víða veröld og að starf Amity sýndi hvað gerðist þegar mismunandi aðilar koma saman í einingu til að starfa að sameiginlegum markmiðum.

Biblíuprentun hófst í Kína á 9. áratugnum að frumkvæði m.a. annarra fulltrúa frá Ástralíu, sér í lagi prentara að nafni David Thorne sem á þeim tíma starfaði í nánu sambandi við Sameinuðu biblíufélögin í Asíu.

Amity prentsmiðjan er til helminga í eigu Amity stofnunarinnar sem eru kristin góðgerðarsamtök í Kína og Sameinuðu biblíufélaganna. Alls starfa um sexhundruð manns í prentsmiðjunni sem er í húsnæði sem er á stærð við rúmlega tvo knattspyrnuvelli.

Sameinuðu biblíufélögin hafa frá upphafi lagt til pappír til prentsmiðjunnar til að draga úr kostnaði við prentun Biblíunnar á kínversku, til að gera Biblíuna eins aðgengilega og frekast er unnt. Á undanförnum árum hefur Hið íslenska biblíufélag safnað fé til kaupa á pappír sem notaður er í Amity prentsmiðjunni.

Frá andláti Maó formanns 1976, sem markaði lok menningarbyltingarinnar í Kína, hefur kristnum söfnuðum og samfélögum fjölgað stöðugt. Þrátt fyrir að Kína sé formlega trúlaust land, þá stefnir í að á næstu árum verði fleiri kristnir í Kína en nokkru öðru landi heims, þar sem fleiri og fleiri íbúar í Kína leita merkingarbærrar trúarlegrar og andlegrar hvíldar. Fenggang Yang, prófessor í félagsfræði við Purdue háskóla í Indiana, telur að það sé innan við ein kynslóð þar til Kína verði fjölmennasta kristna land heims.

Mótmælendakirkjur í Kína höfðu eina milljón félaga í kringum 1949, í kringum 2010 voru um 58 milljónir félaga og spálíkan Fenggang Yang telur að fjöldi í kristnum kirkjum (að undanskildum katólikkum og rétttrúnaðarkirkjum) verði um 160 milljónir 2025 og heildarfjöldi kristinna í Kína árið 2030, verði 247 milljónir. Þannig verði á næstu 10 árum fleiri kristnir í Kína en í Bandaríkjunum svo dæmi sé tekið.

Amity prentsmiðjan hefur lykilhlutverki að gegna í vexti kristninnar í Kína, en hlutverki prentsmiðjunnar lýkur ekki þar. Í dag eru prentaðar Biblíur á fjölda tungumála í Amity prentsmiðjunni sem eru síðan sendar út um allan heim.