16 Þá stóð Páll upp, benti til hljóðs með hendinni og sagði:
„Ísraelsmenn og aðrir þið sem óttist Guð, hlýðið á. 17 Guð Ísraelsmanna útvaldi forfeður vora og lét þjóð vora dafna í útlegðinni í Egyptalandi. Með upplyftum armi leiddi hann hana út þaðan 18 og annaðist hana í eyðimörkinni nærri fjörutíu ár. 19 Hann stökkti burt sjö þjóðum úr Kanaanslandi og gaf henni land þeirra til eignar. 20 Svo stóð um fjögur hundruð og fimmtíu ára skeið.
Eftir það gaf hann henni dómara allt til Samúels spámanns. 21 Síðan bað hún um konung og Guð gaf henni Sál Kísson, mann af Benjamíns ætt. Hann ríkti fjörutíu ár. 22 Þegar Guð hafði sett hann af hóf hann Davíð til konungs yfir henni. Um hann vitnaði hann: Ég hef fundið Davíð, son Ísaí, mann eftir mínu hjarta, er gera mun allan vilja minn. 23 Guð hét því að senda Ísrael frelsara af kyni hans og það er Jesús. 24 En áður en hann kom fram boðaði Jóhannes öllum Ísraelsmönnum að taka sinnaskiptum og láta skírast. 25 Þegar Jóhannes var að enda skeið sitt sagði hann: Hvern hyggið þið mig vera? Ekki er ég hann. Annar kemur eftir mig og er ég eigi verður þess að leysa skóna af fótum honum.
26 Bræður, niðjar Abrahams, og aðrir ykkar á meðal sem óttast Guð. Okkur er sent orð þessa hjálpræðis. 27 Þeir sem í Jerúsalem búa og höfðingjar þeirra þekktu hvorki Jesú né skildu orð spámannanna um hann þótt þau séu lesin upp hvern hvíldardag en uppfylltu þau þegar þeir dæmdu hann til dauða. 28 Þótt þeir fyndu enga dauðasök hjá honum báðu þeir Pílatus að láta lífláta hann. 29 En er þeir höfðu fullnað allt, sem um hann var ritað, tóku þeir hann ofan af krossinum og lögðu í gröf. 30 En Guð vakti hann frá dauðum. 31 Marga daga birtist hann þeim sem með honum fóru frá Galíleu upp til Jerúsalem og eru þeir nú vottar hans hjá fólkinu.