Barnabas og Sál sendir

1 Í söfnuðinum í Antíokkíu voru spámenn og kennarar. Þar voru þeir Barnabas, Símeon, nefndur Níger, Lúkíus frá Kýrene, Manaen, samfóstri Heródesar fjórðungsstjóra, og Sál. 2Eitt sinn er þeir voru að þjóna Drottni og föstuðu sagði heilagur andi: „Takið frá, mér til handa, þá Barnabas og Sál til að vinna það verk sem ég hef kallað þá til.“
3 Síðan föstuðu þeir og báðust fyrir, lögðu hendur yfir þá og létu þá fara.
4 Þeir fóru nú, sendir af heilögum anda, til Selevkíu og sigldu þaðan til Kýpur. 5 Þegar þeir voru komnir til Salamis boðuðu þeir orð Guðs í samkunduhúsum Gyðinga. Höfðu þeir og Jóhannes til aðstoðar.
6 Þeir fóru um alla eyna, allt til Pafos. Þar fundu þeir töframann nokkurn og falsspámann, Gyðing, er hét Barjesús. 7 Hann var hjá landstjóranum Sergíusi Páli, hyggnum manni, sem hafði boðað þá Barnabas og Sál á fund sinn og fýsti að heyra Guðs orð. 8 Gegn þeim stóð Elýmas, töframaðurinn, en svo er nafn hans útlagt. Reyndi hann að koma í veg fyrir að landstjórinn tæki trú. 9 En Sál, sem og er nefndur Páll, hvessti á hann augun og sagði, fylltur heilögum anda: 10 „Þú djöfuls sonur, fullur allra véla og flærðar, óvinur alls réttlætis, ætlar þú aldrei að hætta að rangsnúa réttum vegum Drottins? 11 Nú er hönd Drottins reidd gegn þér og þú munt verða blindur og ekki sjá sól um tíma.“
Jafnskjótt féll yfir hann þoka og myrkur og hann reikaði um og leitaði einhvers til að leiða sig. 12 Þegar landstjórinn sá þennan atburð varð hann gagntekinn af kenningu Drottins og tók trú.

Í Antíokkíu í Pisidíu

13 Þeir Páll lögðu út frá Pafos og komu til Perge í Pamfýlíu en Jóhannes skildi við þá og sneri aftur til Jerúsalem. 14 Sjálfir héldu þeir áfram frá Perge og komu til Antíokkíu í Pisidíu, gengu á hvíldardegi inn í samkunduhúsið og settust. 15 En eftir upplestur úr lögmálinu og spámönnunum sendu samkundustjórarnir til þeirra og sögðu: „Bræður, ef þið hafið einhver hvatningarorð til fólksins takið þá til máls.“