42 Vér höfum syndgað og verið óhlýðnir,
þú hefur ekki fyrirgefið,
43 þú sveipaðir þig reiði, ofsóttir oss
og deyddir vægðarlaust.
44 Þú sveipaðir þig skýi
svo að engin bæn kemst í gegn.
45 Þú gerðir oss að skarni og sorpi
á meðal þjóðanna.
46 Allir óvinir vorir
glenntu upp ginið.
47 Geigur og gildra urðu hlutskipti vort,
eyðing og tortíming.
48 Táralækir streyma af augum mér
því að þjóð minni er tortímt.
49 Hvíldarlaust fljóta augu mín í tárum
án þess að hlé verði á,
50 uns Drottinn lítur niður af himnum
og horfir á.
51 Það sem auga mitt lítur kvelur mig
vegna allra dætra borgar minnar.
52 Þeir sem voru óvinir mínir án tilefnis
hafa elt mig eins og fugl.
53 Þeir reyndu að granda mér í gryfju
og köstuðu steinum á mig.
54 Vatn flóði yfir höfuð mitt,
ég hugsaði: „Það er úti um mig.“
55 Ég ákallaði nafn þitt, Drottinn,
úr djúpi gryfjunnar.
56 Þú heyrðir hróp mitt: „Byrg ekki eyra þitt
fyrir ákalli mínu um hjálp.“
57 Þú nálgaðist mig þegar ég hrópaði til þín,
sagðir: „Óttast ekki!“
58 Þú varðir, Drottinn, málstað minn,
leystir líf mitt.
59 Þú hefur, Drottinn, séð óréttinn sem ég er beittur,
rétt þú hlut minn.
60 Þú hefur séð hefndarþorsta þeirra,
allt ráðabrugg þeirra gegn mér,
61 þú hefur heyrt háðsyrði þeirra, Drottinn,
allt ráðabrugg þeirra gegn mér,
62 sífellt hljóðskraf andstæðinga minna
og ráðagerðir þeirra gegn mér.
63 Sjá þú, hvort sem þeir sitja eða standa
kveða þeir háðkvæði um mig.
64 Endurgjald þeim, Drottinn,
eins og þeir hafa til unnið.
65 Legg hulu yfir hjarta þeirra,
bölvan þín komi yfir þá.
66 Ofsæktu þá í reiði og afmá þá
undan himni Drottins.