46 Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. 47 Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. 48 Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“
49 Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“
50 Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“
Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. 51 En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi.
52 Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ 53 Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk.