31 Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir 32 og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“
33 Fólkið svaraði honum: „Við erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: Þið munuð verða frjálsir?“
34 Jesús svaraði þeim: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem drýgir synd er þræll syndarinnar. 35 En þrællinn dvelst ekki um aldur á heimilinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi. 36 Ef sonurinn frelsar yður munuð þér sannarlega verða frjálsir.