Miskunn Guðs varir

21En þetta vil ég hugfesta
og þess vegna vona ég:
22 Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
23 hún er ný á hverjum morgni,
mikil er trúfesti þín.
24 Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín,
þess vegna vona ég á hann.
25 Góður er Drottinn þeim er á hann vona
og þeim manni er til hans leitar.
26 Gott er að bíða hljóður
eftir hjálp Drottins.
27 Gott er fyrir manninn
að bera ok í æsku.
28 Hann sitji einn og hljóður
þegar Drottinn hefur lagt það á hann.
29 Hann liggi með munninn við jörðu,
vera má að enn sé von,
30 hann bjóði þeim vangann sem slær hann,
láti metta sig smán.
31 Því að ekki útskúfar Drottinn
um alla eilífð.
32 Þótt hann valdi harmi miskunnar hann
af mikilli náð sinni.
33 Því að viljandi hrjáir hann ekki
né hrellir mannanna börn.
34 Að troða undir fótum
alla bandingja landsins,
35 að halla rétti manns
fyrir augliti Hins hæsta,
36 að beita mann ranglæti í máli hans,
skyldi Drottinn ekki sjá það?
37 Hver er sá sem bauð og það varð
án þess að Drottinn hafi ákveðið það?
38 Gengur ekki fram af munni Hins hæsta
bæði gæfa og ógæfa?
39 Hví skyldi nokkur lifandi maður kvarta
sem refsað er fyrir syndir sínar?
40 Rannsökum breytni vora og prófum
og snúum aftur til Drottins.
41 Fórnum hjarta og höndum
til Guðs í himninum.