18Hrópa hátt til Drottins,
þú mærin, dóttir Síonar.
Lát tárin renna eins og læk
dag og nótt,
unn þér engrar hvíldar,
lát auga þitt ekki hvílast.
19Rís á fætur! Kveina um nætur
við upphaf hverrar vöku.
Úthell hjarta þínu eins og vatni
frammi fyrir augliti Drottins,
fórna höndum til hans
fyrir lífi barna þinna
sem hníga niður magnþrota af hungri
á öllum gatnamótum.
20Sjá, Drottinn, og hygg að
hvern þú hefur leikið þannig.
Eiga konur að eta afkvæmi sín,
börnin sem þær bera á örmum?
Á að myrða presta og spámenn
í helgidómi Drottins?
21Ungir og aldnir
liggja vegnir á strætunum,
sveinar og öldungar.
Meyjar mínar og æskumenn
féllu fyrir sverði.
Þú réðst þeim bana á reiðidegi þínum,
slátraðir vægðarlaust.
22 Eins og þú kvaddir til hátíða
stefndir þú ógnum að mér hvaðanæva.
Enginn komst undan og lifði af
á reiðidegi Drottins.
Þá sem ég bar á örmum og ól önn fyrir
hefur óvinur minn afmáð.