11Augu mín daprast af gráti,
ég ólga hið innra
og galli mínu er úthellt á jörðina
sökum tortímingar dótturinnar, þjóðar [ minnar,
börn og brjóstmylkingar hníga magnþrota niður
á strætum borgarinnar.
12Þau segja við mæður sínar:
„Hvar er korn og vín?“
þar sem þau hníga máttvana niður eins og helsárir menn
á strætum borgarinnar.
Þau gefa upp öndina
í faðmi mæðra sinna.
13Hvernig get ég hughreyst þig, við hvað líkt þér,
dóttirin Jerúsalem?
Hverju á ég að jafna við þig til að hugga þig,
mærin Síonardóttir?
Sár þitt er stórt eins og hafið,
hver gæti læknað þig?
14Sýnir spámanna þinna um þig
voru tál og blekking.
Þeir afhjúpuðu ekki misgjörð þína
til þess að snúa við högum þínum
heldur birtu þér spár
sem voru tál og ginningar.
15Allir sem fram hjá fara
skella saman lófum,
fussa [ og hrista höfuðið
yfir dótturinni Jerúsalem:
„Er þetta borgin, hin alfagra,
yndi gervallrar jarðar?“
16Allir óvinir þínir
glenna upp ginið gegn þér,
fussa og gnísta tönnum
og segja: „Vér höfum afmáð hana!
Þetta er dagurinn langþráði,
vér lifðum það að sjá hann!“
17Drottinn hefur gert það sem hann ásetti sér,
látið það rætast
sem hann varaði við forðum daga.
Vægðarlaust hefur hann rifið niður,
látið óvinina hlakka yfir þér
og hafið horn fjandmanna þinna.