Drottinn hegnir Jerúsalem

1Hvílíkum sorta hefur Drottinn í reiði sinni
hulið dótturina Síon.
Frá himni varpaði hann til jarðar
vegsemd Ísraels
og minntist ekki fótskarar sinnar
á degi reiði sinnar.
2Vægðarlaust eyddi Drottinn
öllum dvalarstöðum Jakobs,
reif niður í bræði sinni
vígi Júdadóttur
og jafnaði þau við jörðu.
Hann svipti ríkið sæmd,
og ráðamenn þess.
3Í brennandi reiði hjó hann af
öll horn Ísraels,
dró að sér hægri höndina
er óvinirnir nálguðust
og brann í Jakobi eins og bál
sem eyðir öllu umhverfis.
4Hann spennti boga sinn eins og óvinur,
með styrkri hægri hendi,
og drap eins og fjandmaður
allt sem auganu var yndi
í tjaldi dótturinnar Síonar.
Hann úthellti heift sinni eins og eldi.
5Drottinn kom fram sem óvinur,
eyddi Ísrael,
lagði hallir hans í rúst
og braut niður virki hans.
Hryggð og harmi
olli hann Júdadóttur.
6Hann gerði tjaldbúð sína að moldarflagi,
umturnaði samkomustað sínum.
Drottinn lét hvíldardaga og hátíðir
gleymast í Síon
og útskúfaði í ákafri reiði sinni
konungi og prestum.
7Drottinn hefur hafnað altari sínu,
afneitað helgidómi sínum,
ofurselt í óvina hendur
hallarmúra hennar.
Þeir létu óp glymja í musteri Drottins
eins og á hátíðardegi.
8Drottinn hafði ásett sér að eyða
múr dótturinnar Síonar.
Hann þandi mælisnúru,
aftraði ekki hendi sinni frá því að eyða,
sló varnarvirki og múr harmi,
saman örmagnast þau.
9Hlið hennar eru sokkin í jörðu,
hann ónýtti og braut slagbranda hennar.
Konungur hennar og ráðamenn eru meðal heiðingjanna,
án leiðsagnar,
og spámenn hennar fá engar
vitranir frá Drottni.
10Öldungar dótturinnar Síonar
sitja þöglir á jörðinni.
Þeir hafa ausið mold yfir höfuð sín,
og gyrt sig hærusekk.
Meyjar Jerúsalem
hneigðu höfuð að jörðu.