11. kafli

27 Á þessum dögum komu spámenn frá Jerúsalem til Antíokkíu. 28 Einn þeirra, Agabus að nafni, steig fram og af gift andans sagði hann fyrir að mikil hungursneyð mundi koma yfir alla heimsbyggðina. Kom það fram á dögum Kládíusar. 29 Lærisveinarnir í Antíokkíu samþykktu þá að hver þeirra skyldi eftir efnum senda nokkuð til hjálpar lærisveinunum[ sem bjuggu í Júdeu. 30 Þetta gerðu þeir og sendu það til öldunganna með þeim Barnabasi og Sál.

12. kafli

Ofsóknir

1 Um þessar mundir lét Heródes[ konungur leggja hendur á nokkra úr söfnuðinum og misþyrma þeim. 2 Hann lét höggva Jakob, bróður Jóhannesar, með sverði. 3 Og er hann sá að Gyðingum líkaði vel lét hann einnig taka Pétur. Þá voru dagar ósýrðu brauðanna. 4Þegar hann hafði handtekið hann lét hann setja hann í fangelsi og fól fjórum fjögurra hermanna varðflokkum að gæta hans. Ætlaði hann eftir páska að yfirheyra hann opinberlega. 5 Sat nú Pétur í fangelsinu en söfnuðurinn bað heitt til Guðs fyrir honum.
6 Nóttina áður en Heródes ætlaði að leiða hann fram svaf Pétur milli tveggja hermanna, bundinn tveim fjötrum, og varðmenn fyrir dyrum úti gættu fangelsisins. 7 Allt í einu stóð engill Drottins hjá honum og ljós skein í klefanum. Laust hann á síðu Pétri, vakti hann og mælti: „Rís upp skjótt!“ Og fjötrarnir féllu af höndum hans. 8 Þá sagði engillinn við hann: „Gyrð þig beltinu og bind á þig skóna!“ Hann gerði svo. Síðan segir engillinn: „Far þú í yfirhöfn þína og fylg mér!“ 9 Hann gekk út og fylgdi honum. En ekki vissi hann að það var raunverulegt sem gerst hafði við komu engilsins, hann hélt sig sjá sýn. 10 Þeir gengu nú fram hjá innri og ytri verðinum og komu að járnhliðinu sem farið er um til borgarinnar. Laukst það upp af sjálfu sér fyrir þeim. Þeir fóru út um það og gengu eitt stræti en þá hvarf engillinn allt í einu frá honum.