17 Meðan Pétur var að reyna að ráða í hvað þessi sýn ætti að merkja höfðu sendimenn Kornelíusar spurt uppi hús Símonar. Nú stóðu þeir fyrir dyrum úti 18 og kölluðu: „Er Símon sá er nefnist Pétur gestur hér?“
19 Pétur var enn að hugsa um sýnina þegar andinn sagði við hann: „Þrír menn[ eru að leita þín. 20 Flýt þér ofan og far hiklaust með þeim því að ég hef sent þá.“ 21 Pétur gekk þá niður til mannanna og sagði: „Ég er sá sem þið leitið að. Hvers vegna eruð þið komnir hingað?“
22 Þeir sögðu: „Kornelíus hundraðshöfðingi, réttlátur maður og guðrækinn og í miklum metum meðal allra Gyðinga, fékk bendingu frá heilögum engli að senda eftir þér og fá þig heim til sín að heyra hvað þú hefðir að flytja.“ 23 Þá bauð hann þeim inn og lét þá gista.
Daginn eftir tók hann sig upp og fór með þeim og nokkrir úr söfnuðinum í Joppe með honum[. 24 Næsta dag komu þeir til Sesareu. Kornelíus bjóst við þeim og hafði boðið til sín frændum og virktavinum. 25 Þegar Pétur kom fór Kornelíus á móti honum, féll til fóta honum og veitti honum lotningu. 26 Pétur reisti hann upp og sagði: „Statt upp, ég er maður sem þú.“ 27 Og hann ræddi við hann og gekk inn og fann þar marga menn saman komna. 28 Hann sagði við þá: „Þið vitið að Gyðingi er bannað að eiga samneyti við annarrar þjóðar mann eða koma til hans. En Guð hefur sýnt mér að ég á engan að kalla vanheilagan eða óhreinan. 29 Fyrir því kom ég mótmælalaust er eftir mér var sent. Nú spyr ég hvers vegna þið senduð eftir mér.“
30 Kornelíus mælti: „Í þetta mund fyrir fjórum dögum var ég að biðjast fyrir að nóni í húsi mínu. Þá stóð maður frammi fyrir mér í skínandi klæðum 31 og mælti: Kornelíus, Guð hefur heyrt bæn þína og minnst ölmusugerða þinna. 32 Nú skalt þú senda til Joppe eftir Símoni er kallast Pétur. Hann gistir í húsi Símonar sútara við sjóinn. 33Því sendi ég jafnskjótt til þín og vel gerðir þú að koma. Nú erum við öll hér saman frammi fyrir Guði til að heyra allt sem Drottinn hefur boðið þér.“