1 Maður nokkur var í Sesareu, Kornelíus að nafni, hundraðshöfðingi í ítölsku hersveitinni. 2 Hann var trúmaður og guðrækinn og heimafólk hans allt. Hann gaf Gyðingum miklar ölmusur og var jafnan á bæn til Guðs. 3 Dag einn um nón sá hann berlega í sýn engil Guðs koma inn til sín er sagði við hann: „Kornelíus!“
4 Hann starði á engilinn, varð óttasleginn og sagði: „Hvað er það, herra?“
Engillinn svaraði: „Bænir þínar og ölmusur eru stignar upp til Guðs og hann minnist þeirra. 5 Send þú nú menn til Joppe og lát sækja Símon nokkurn er kallast Pétur. 6 Hann gistir hjá Símoni nokkrum sútara sem á hús við sjóinn.“ 7 Þegar engillinn, sem talaði við hann, var farinn kallaði hann á tvo heimamenn sína og guðrækinn hermann, einn þeirra er honum voru handgengnir, 8 sagði þeim frá öllu og sendi þá til Joppe.
9 Daginn eftir, er þeir voru á leiðinni og nálguðust bæinn, gekk Pétur upp á húsþakið um hádegi til að biðjast fyrir. 10 Kenndi hann þá hungurs og vildi matast. En meðan verið var að matreiða fékk hann vitrun. 11 Hann sá himininn opinn og hlut nokkurn koma niður, líkan stórum dúki. Var hann látinn síga til jarðar á fjórum skautum. 12 Þar voru á alls kyns ferfætt dýr, skriðdýr jarðar, svo og fuglar himins. 13 Og honum barst rödd: „Slátra nú, Pétur, og et!“
14 Pétur sagði: „Nei, Drottinn, engan veginn, aldrei hef ég etið neitt vanheilagt né óhreint.“
15 Aftur barst honum rödd: „Eigi skalt þú kalla það vanheilagt sem Guð hefur lýst hreint!“ 16 Þetta gerðist þrem sinnum og jafnskjótt var hluturinn upp numinn til himins.