19Þú gerðir tunglið, sem ákvarðar tíðirnar,
og sólina sem veit hvenær hún á að ganga til viðar.
20Þú sendir myrkrið, þá verður nótt
og öll skógardýrin fara á stjá.
21Ljónin öskra eftir bráð
og krefjast ætis af Guði.
22 Þegar sólin rís draga þau sig í hlé
og leggjast í bæli sín.
23 Þá fer maðurinn út til starfa sinna
og vinnur þar til kvöldar.
24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn?
Þú vannst þau öll af speki.
Jörðin er full af því sem þú hefur skapað.
25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu.
Þar er óteljandi grúi,
smá dýr og stór.
26 Þar fara skipin um
og Levjatan [ er þú hefur skapað til þess að leika sér þar.
27 Öll vona þau á þig
að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
28 Þú gefur þeim og þau tína,
þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum.
29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau,
þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau
og hverfa aftur til moldarinnar.
30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til
og þú endurnýjar ásjónu jarðar.
31 Dýrð Drottins vari að eilífu,
Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,
32 hann sem lítur til jarðar svo að hún nötrar,
sem snertir við fjöllunum svo að úr þeim rýkur.
33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi,
lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.
34 Ó, að mál mitt mætti falla honum í geð.
Ég gleðst yfir Drottni.
35 Ó, að syndarar mættu hverfa af jörðinni
og óguðlegir ekki vera til framar.
Lofa þú Drottin, sála mín.
Hallelúja.