14 Þegar postularnir í Jerúsalem heyrðu að íbúar Samaríu hefðu tekið við orði Guðs sendu þeir til þeirra þá Pétur og Jóhannes. 15 Þeir fóru norður þangað og báðu Guð um að veita þeim heilagan anda 16 því að enn var andinn ekki kominn yfir neinn þeirra. Þeir voru aðeins skírðir til nafns Drottins Jesú. 17 Nú lögðu þeir hendur yfir þá og fengu þeir heilagan anda.
18 En er Símon sá að menn fengu heilagan anda þegar postularnir lögðu hendur yfir þá bauð hann þeim fé og sagði: 19 „Gefið einnig mér þetta vald, að hver sá er ég legg hendur yfir fái heilagan anda.“
20 En Pétur svaraði: „Þrífist aldrei silfur þitt né sjálfur þú fyrst þú hugðist eignast gjöf Guðs fyrir fé. 21 Þú átt hvorki skerf né hlut í þessu því að þú ert ekki einlægur í hjarta þínu gagnvart Guði. 22 Snú því huga þínum frá þessari illsku þinni og bið Drottin að hann mætti fyrirgefa þér það sem þú hafðir í huga 23 því ég sé að þú ert fullur gallbeiskju og fjötraður ranghugsun.“
24 Símon sagði: „Biðjið fyrir mér til Drottins að ekkert komi það yfir mig sem þið hafið mælt.“
25 Er þeir höfðu nú vitnað og boðað orð Drottins sneru þeir aftur áleiðis til Jerúsalem og boðuðu fagnaðarerindið í mörgum þorpum Samverja.

Filippus og hirðmaður frá Eþíópíu

26 En engill Drottins mælti til Filippusar: „Statt upp og gakk suður[ á veginn sem liggur ofan frá Jerúsalem til Gasa.“ Þar er óbyggð. 27 Hann hlýddi og fór. Þá bar að mann frá Eþíópíu. Hann var háttsettur hirðmaður hjá drottningu Eþíópa, sem kallast Kandake, og settur yfir alla fjárhirslu hennar. Hann hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir 28 og var á heimleið, sat í vagni sínum og las Jesaja spámann. 29 Andinn sagði þá við Filippus: „Gakk að þessum vagni og vertu sem næst honum.“ 30 Filippus skundaði þangað og heyrði manninn vera að lesa Jesaja spámann. Hann spurði: „Hvort skilur þú það sem þú ert að lesa?“
31 Hinn svaraði: „Hvernig ætti ég að geta það ef enginn leiðbeinir mér?“ Og hann bað Filippus stíga upp í og setjast hjá sér. 32 En orð þeirrar ritningar, sem hann var að lesa, voru þessi:
Eins og sauður sem leiddur er til slátrunar,
eða eins og lamb sem þegir fyrir þeim er rýja það,
svo lauk hann ekki upp munni sínum.
33 Hann var niðurlægður en Guð nam brott sektardóm hans.
Hver getur sagt frá ætt hans
því að líf hans var hrifið burt af jörðinni?

34 Hirðmaðurinn mælti þá við Filippus: „Seg þú mér: Um hvern segir spámaðurinn þetta, sjálfan sig eða einhvern annan?“ 35 Filippus tók þá til orða, hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú. 36Þegar þeir fóru áfram veginn komu þeir að vatni nokkru. Þá mælti hirðmaðurinn: „Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast?“ 37 [Filippus sagði: „Ef þú trúir af öllu hjarta er það heimilt.“ Hirðmaðurinn svaraði honum: „Ég trúi að Jesús Kristur sé sonur Guðs.“][ 38 Hann lét stöðva vagninn og stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann. 39 En er þeir stigu upp úr vatninu hreif andi Drottins Filippus burt. Hirðmaðurinn sá hann ekki framar og fór fagnandi leiðar sinnar. 40 En Filippus kom fram í Asdód, fór um og flutti fagnaðarerindið í hverri borg uns hann kom til Sesareu.