38 Það var hann sem var í söfnuðinum í eyðimörkinni, ásamt englinum sem talaði við hann á Sínaífjalli, og með feðrum vorum. Hann tók á móti lifandi orðum að gefa okkur. 39 Eigi vildu forfeður vorir hlýðnast honum heldur hrundu honum frá sér og þráðu í hjörtum sínum Egyptaland. 40 Þeir sögðu við Aron: Ger okkur guði sem geta farið fyrir okkur því að ekki vitum við hvað orðið er af Móse þeim sem leiddi okkur brott af Egyptalandi. 41 Og á þeim dögum smíðuðu þeir kálf, færðu skurðgoðinu fórn og glöddust yfir verki handa sinna. 42 En Guð sneri sér frá þeim og lét þeim eftir að dýrka her himinsins eins og ritað er í spámannabókinni:
Ekki færðuð þér mér sláturdýr og fórnir
árin fjörutíu í eyðimörkinni, Ísraelsmenn.
43 Nei, þér báruð tjaldbúð Móloks
og stjörnu guðsins Refans, myndirnar sem þér smíðuðuð til þess að tilbiðja þær.
Ég mun herleiða yður austur fyrir Babýlon.

44 Forfeður vorir höfðu vitnisburðartjaldbúðina með sér í eyðimörkinni. Guð, sem talaði við Móse, hafði boðið honum að gera hana og hann lét gera hana eftir þeirri fyrirmynd sem hann sá. 45 Forfeður vorir tóku við henni og fluttu hana með sér undir stjórn Jósúa inn í landið sem þeir tóku til eignar af heiðingjunum sem Guð rak brott undan þeim. Hver ný kynslóð tók við henni allt til daga Davíðs. 46 Hann fann náð hjá Guði og bað að hann mætti finna bústað fyrir Jakobs Guð.[ 47 En Salómon reisti honum hús.
48 En eigi býr Hinn hæsti í því sem með höndum er gert. Spámaðurinn segir:
49 Himinninn er hásæti mitt
og jörðin skör fóta minna.
Hvaða hús munuð þér reisa mér, segir Drottinn,
eða hver er hvíldarstaður minn?
50 Hefur ekki hönd mín skapað allt þetta?
51 Þið harðsvíraðir og óumskornir í hjörtum og á eyrum, þið standið ávallt gegn heilögum anda eins og feður ykkar. 52 Hver var sá spámaður sem feður ykkar ofsóttu eigi? Þeir drápu þá er boðuðu fyrir fram komu Hins réttláta og nú hafið þið svikið hann og myrt. 53 Þið sem fenguð lögmálið um hendur engla hafið samt eigi haldið það.“

Stefán grýttur

54 Þegar ráðsherrarnir heyrðu þetta trylltust þeir og gnístu tönnum gegn Stefáni. 55 En hann horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði 56 og sagði: „Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði.“
57 Þá æptu þeir hástöfum, héldu fyrir eyrun og réðust að honum, allir sem einn maður. 58 Þeir hröktu hann út úr borginni og tóku að grýta hann. En vottarnir lögðu yfirhafnir sínar að fótum ungum manni er Sál hét. 59 Þannig grýttu þeir Stefán. En hann ákallaði Drottin og sagði: „Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn.“ 60 Síðan féll hann á kné og hrópaði hárri röddu: „Drottinn, lát þá ekki gjalda þessarar syndar.“ Þegar hann hafði þetta mælt sofnaði hann.