1 Þá spurði æðsti presturinn: „Er þessu svo farið?“ 2 Stefán svaraði: „Heyrið mig, bræður og feður. Guð dýrðarinnar birtist föður vorum, Abraham, er hann var enn í Mesópótamíu, áður en hann settist að í Haran, 3 og sagði við hann: Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu til landsins sem ég mun vísa þér á. 4 Þá fór hann burt úr Kaldealandi og settist að í Haran. En eftir lát föður hans leiddi Guð hann þaðan til þessa lands sem þið nú byggið. 5 Ekki gaf hann honum óðal hér, ekki eitt þverfet. En hann hét honum að gefa honum landið til eignar og niðjum hans eftir hann þótt hann væri enn barnlaus. 6 Guð sagði að niðjar hans mundu búa sem aðkomumenn í ókunnu landi og verða þjáðir og þrælkaðir í fjögur hundruð ár. 7 En þjóðinni, sem þrælkar þá, mun ég refsa, sagði Guð, og eftir það munu þeir fara þaðan og þjóna mér á þessum stað. 8 Guð gaf honum sáttmála umskurnarinnar. Síðan gat Abraham Ísak og umskar hann á áttunda degi og Ísak gat Jakob og Jakob ættfeðurna tólf.
9 Og ættfeðurnir öfunduðu Jósef og seldu hann til Egyptalands. En Guð var með honum, 10 frelsaði hann úr öllum þrengingum hans og veitti honum visku og lét hann ná hylli faraós svo að hann skipaði hann höfðingja yfir Egyptalandi og öllum eigum sínum. 11 Nú kom hallæri á öllu Egyptalandi og Kanaan og mikil þrenging og feður vorir höfðu ekki lífsbjörg. 12 En er Jakob heyrði að korn væri til á Egyptalandi sendi hann forfeður vora þangað hið fyrra sinn. 13 Og í síðara skiptið gaf Jósef sig fram við bræður sína og faraó varð kunn ætt Jósefs. 14 En Jósef sendi eftir Jakobi föður sínum og öllu ættfólki sínu, sjötíu og fimm manns, 15 og Jakob fór suður til Egyptalands. Þar andaðist hann og forfeður vorir. 16 Þeir voru fluttir til Síkem og lagðir í grafreitinn er Abraham hafði keypt fyrir silfur af sonum Hemors í Síkem.
17 Nú tók að nálgast sá tími er rætast skyldi fyrirheitið sem Guð hafði gefið Abraham. Fólkinu hafði fjölgað og það margfaldast í Egyptalandi. 18 Þá hófst til ríkis þar annar konungur er eigi vissi skyn á Jósef. 19 Hann beitti kyn okkar slægð og lék forfeður vora illa. Hann lét þá bera út ungbörn sín til þess að þjóðin skyldi eigi lífi halda.