1 Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar og höfðu menn gætur á honum. 2 Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. 3 Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“
4 Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. 5 Og Jesús mælti við þá: „Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt hvíldardagur sé?“
6 Þeir gátu engu svarað þessu.
7 Jesús gaf því gætur hvernig boðsgestir völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: 8 „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið 9 og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. 10 Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. 11 Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“