1Lofa þú Drottin, sála mín.
Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill.
Þú ert skrýddur dýrð og hátign,
2sveipaður ljósi sem skikkju.
Þú þenur út himininn eins og tjalddúk,
3reftir sal þinn ofar skýjum.
Þú gerir skýin að vagni þínum,
ferð um á vængjum vindsins.
4Þú gerir vindana að sendiboðum þínum,
bálandi eld að þjónum þínum.
5Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar
svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.
6Frumdjúpið huldi hana eins og klæði,
vötnin náðu yfir fjöllin,
7þau flýðu ógnun þína,
hrökkluðust undan þrumuraust þinni,
8flæddu yfir fjöll, steyptust niður í dali,
þangað sem þú hafðir ætlað þeim stað.
9Þú settir vatninu mörk sem það má ekki fljóta yfir,
aldrei framar skal það hylja jörðina.
10Þú lést lindir spretta upp í dölunum,
þær streyma milli fjallanna,
11þær svala öllum dýrum merkurinnar,
villiasnarnir slökkva þar þorsta sinn.
12Við þær búa fuglar himinsins,
kvaka milli laufgaðra greina.
13Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum
og af ávexti verka þinna mettast jörðin.
14Þú lætur gras spretta handa fénaðinum
og jurtir sem maðurinn ræktar
svo að jörðin gefi af sér brauð
15og vín sem gleður mannsins hjarta,
olíu sem lætur andlit hans ljóma
og brauð sem veitir honum þrótt.
16Tré Drottins drekka nægju sína,
sedrustré Líbanons sem hann gróðursetti.
17Þar gera fuglar sér hreiður
og storkar eiga sér bústað í krónum þeirra.
18Í gnæfandi fjöllum búa steingeitur
og klettarnir eru skjól stökkhéra.