1 Meðan þeir Pétur og Jóhannes voru að tala til fólksins komu að þeim prestarnir, varðforingi helgidómsins og saddúkearnir. 2 Þeir voru æfir yfir því að postularnir voru að kenna fólkinu og boða upprisuna frá dauðum í krafti Jesú. 3 Lögðu þeir hendur á þá og hnepptu þá í varðhald til næsta morguns því að kvöld var komið. 4 En mörg þeirra, er heyrt höfðu orðið, tóku trú og tala karlmannanna einna varð um fimm þúsundir.
5 Morguninn eftir komu höfðingjarnir, öldungarnir og fræðimennirnir saman í Jerúsalem. 6 Þar voru Annas, æðsti prestur, Kaífas, Jóhannes, Alexander og allir sem voru af æðstaprestsættum. 7 Þeir létu leiða postulana fram og spurðu þá: „Með hvaða krafti eða í hvers nafni gerðuð þið þetta?“
8 Þá sagði Pétur við þá, fylltur heilögum anda: „Höfðingjar þjóðar okkar og öldungar, 9 með því að við eigum í dag að svara til saka vegna góðverks við sjúkan mann og gera grein fyrir því hvernig hann sé orðinn heill, 10 þá sé ykkur öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þið krossfestuð en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum ykkar. 11 Jesús er
steinninn sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis,
hann er orðinn að hyrningarsteini.
12 Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld sem getur frelsað okkur.“
13 Þegar ráðsherrarnir sáu djörfung Péturs og Jóhannesar og skildu að þeir voru ekki lærðir, heldur óbrotnir alþýðumenn, undruðust þeir. Þeir könnuðust og við að þeir höfðu verið með Jesú. 14 Og er þeir sáu manninn, sem læknaður hafði verið, standa hjá þeim máttu þeir ekki í móti mæla. 15 Þeir skipuðu þeim að ganga út frá ráðinu, tóku saman ráð sín og sögðu: 16 „Hvað eigum við að gera við þessa menn? Því að öllum Jerúsalembúum er það ljóst að þeir hafa gert ótvírætt tákn. Við getum ekki neitað því. 17 Þetta má ekki berast frekar út meðal fólksins. Við skulum því hóta þeim hörðu svo að þeir tali aldrei framar í þessu nafni við nokkurn.“
18 Síðan kölluðu þeir þá fyrir sig og skipuðu þeim að hætta með öllu að tala í Jesú nafni. 19 Pétur og Jóhannes svöruðu: „Dæmið sjálfir hvort það sé rétt í augum Guðs að hlýðnast ykkur fremur en honum. 20 Við getum ekki annað en talað það sem við höfum séð og heyrt.“ 21 En þeir ógnuðu þeim enn frekar og slepptu þeim síðan þar sem þeir sáu enga leið vegna fólksins að hegna þeim því allir lofuðu Guð fyrir þennan atburð, 22 en maðurinn, sem læknast hafði með þessu tákni, var yfir fertugt.