12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu,
svo langt hefur hann fjarlægt afbrot vor frá oss.
13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum,
eins hefur Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort,
minnist þess að vér erum mold.
15 Dagar mannsins eru sem grasið,
hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn
og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann
varir frá eilífð til eilífðar
og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans
og muna að breyta eftir boðum hans.
19 Drottinn hefur reist hásæti sitt á himnum
og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans,
þér voldugu hetjur er framkvæmið boð hans,
er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans,
þjónar hans er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans,
á hverjum stað í ríki hans.
Lofa þú Drottin, sála mín.