24 Foringi lífvarðarins tók einnig Seraja yfirprest til fanga, Sefanía prest, sem næst honum gekk, og hliðverðina þrjá. 25 Úr borginni tók hann hirðmann þann sem hafði eftirlit með hermönnunum, sjö af nánustu þjónum konungs sem enn voru í borginni, ritara hershöfðingjans sem annaðist herkvaðningu og sextíu alþýðumenn sem enn voru í borginni. 26 Nebúsaradan lífvarðarforingi tók þá höndum og fór með þá til Ribla til konungsins í Babýlon. 27Konungur lét höggva þá til bana í Ribla í Hamathéraði. Þannig voru íbúar Júda fluttir í útlegð úr landi sínu.
28 Þetta er fjöldi þess fólks sem Nebúkadresar lét flytja í útlegð: Á sjöunda stjórnarári hans 3023 Júdamenn, 29 á átjánda ári Nebúkadresars 832 menn frá Jerúsalem, 30 á tuttugasta og þriðja stjórnarári Nebúkadresars flutti Nebúsaradan lífvarðarforingi 745 Júdamenn í útlegð. Alls voru þetta 4600 manns.

Jójakín náðaður

31 Á þrítugasta og sjöunda útlegðarári Jójakíns Júdakonungs, á tuttugasta og fimmta degi í tólfta mánuði, árið sem Evíl Merodak varð konungur í Babýlon, náðaði hann Jójakín Júdakonung og sleppti honum úr fangelsinu. 32 Hann sýndi honum velvild og vísaði honum til sætis ofar hinum konungunum sem voru hjá honum í Babýlon. 33 Jójakín þurfti ekki að bera fangabúning framar og það sem hann átti ólifað sat hann til borðs með konungi. 34 Meðan hann lifði veitti konungur Jójakín reglulega það sem hann þurfti sér til daglegs viðurværis.