Hús Drottins lagt í rúst

12 Á tíunda degi fimmta mánaðar, á nítjánda stjórnarári Nebúkadresars Babýloníukonungs, kom til Jerúsalem Nebúsaradan, foringi lífvarðarins, sem þjónaði konunginum. 13 Hann lagði eld að húsi Drottins, húsi konungs og öllum öðrum húsum í Jerúsalem. Hann brenndi öll vegleg hús. 14 Hermenn Kaldea, sem foringi lífvarðarins stjórnaði, rifu niður múrana umhverfis Jerúsalem. 15 Nebúsaradan lífvarðarforingi flutti í útlegð þá sem eftir voru í borginni ásamt liðhlaupunum sem gengið höfðu konungi Babýlonar á hönd og þá sem eftir voru af handverksmönnunum. 16 Nebúsaradan lífvarðarforingi skildi aðeins eftir nokkra fátæklinga til að erja víngarða og akra.
17 Eirsúlurnar í húsi Drottins, vagngrindurnar og eirhafið í húsi Drottins brutu Kaldear í sundur og fluttu eirinn til Babýlonar. 18 Þeir tóku með sér kerin, skóflurnar, skarbítana, skálarnar og öll eiráhöldin sem notuð voru við guðsþjónustuna. 19 Foringi lífvarðarins tók einnig katlana, eldpönnurnar, skálarnar, pottana, ljósastikurnar, bollana og kerin, allt sem var úr gulli og silfri. 20 Súlurnar tvær, hafið ásamt tólf nautum úr eir undir því og vagngrindurnar, sem Salómon konungur hafði látið gera fyrir hús Drottins, allt var það gert úr svo miklum eir að það varð ekki vegið. 21 Önnur súlan var átján álnir á hæð og tólf álna langan þráð þurfti til þess að ná utan um hana. Hún var fjögurra fingra þykk og hol að innan. 22 Ofan á henni var súlnahöfuð úr eir, fimm álnir á hæð. Net með granateplum var umhverfis súlnahöfuðið. Allt þetta var úr eir. Hin súlan var eins. 23 Granateplin, sem héngu laus, voru níutíu og sex, alls voru hundrað granatepli allt umhverfis á netinu.