51. kafli

Bók Jeremía um Babýlon

59 Jeremía spámaður gaf Seraja Neríasyni, Mahasejasonar, fyrirmæli þegar Seraja fór með Sedekía, konungi í Júda, til Babýlonar á fjórða stjórnarári hans. Seraja sá um dvalarstaði konungs. 60 Jeremía hafði skrifað á bók um allt það böl sem koma átti yfir Babýlon. Það voru þau ummæli um Babýlon sem hér hafa verið skráð. 61 Jeremía sagði við Seraja: „Þegar þú kemur til Babýlonar skaltu lesa upp öll þessi orð 62 og segja: Drottinn, þú hefur sjálfur hótað þessum stað eyðingu svo að enginn geti búið þar framar, hvorki menn né skepnur. Hann á að verða eyðimörk um alla framtíð. 63 Þegar þú hefur lokið lestrinum skaltu binda stein við bókrulluna og fleygja henni út í Efrat 64 og segja: Þannig skal Babýlon sökkva og aldrei koma upp aftur. Það er afleiðing ógæfunnar sem ég sendi henni.“
Hér lýkur ræðum Jeremía.

52. kafli

Viðauki

Fall Jerúsalem

1 Sedekía var tuttugu og eins árs þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem ellefu ár. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir frá Líbna. 2 Hann gerði það sem illt var í augum Drottins eins og Jójakím. 3 Vegna reiði Drottins fór þannig fyrir Jerúsalem og Júda og þar kom að hann rak þau frá augliti sínu.
Sedekía gerði uppreisn gegn konunginum í Babýlon. 4 Á níunda stjórnarári Sedekía bar svo við á tíunda degi tíunda mánaðar að Nebúkadresar, konungur í Babýlon, kom til Jerúsalem með allan her sinn og settist um hana. Þeir reistu virki til árása umhverfis hana 5 og var borgin umsetin til ellefta stjórnarárs Sedekía konungs. 6 Á níunda degi í fjórða mánuðinum, þegar hungursneyðin var orðin mikil í borginni og enga fæðu að hafa handa íbúunum, 7var borgarmúrinn rofinn. Um nóttina flýðu allir vopnfærir menn gegnum hliðið milli múranna tveggja gegnt garði konungsins. Tókst þeim og konungi að flýja þó að Kaldear umkringdu borgina og héldu í átt til Arabasléttunnar. 8En hermenn Kaldea veittu konungi eftirför og náðu honum á Jeríkósléttunni. Þá hafði allur her hans yfirgefið hann og tvístrast.
9 Þeir tóku konunginn og fóru með hann til Babýloníukonungs í Ribla í Hamathéraði sem kvað upp dóm yfir honum. 10 Babýloníukonungur lét hálshöggva syni Sedekía fyrir augum hans. Hann lét einnig hálshöggva alla höfðingja Júda í Ribla. 11 Hann lét stinga augun úr Sedekía og setja hann í hlekki. Því næst lét konungurinn í Babýlon flytja hann til Babýlonar og hafði hann í haldi til dauðadags.