50 Þér sem hafið komist undan sverðinu,
haldið af stað, nemið ekki staðar.
Minnist Drottins úr fjarlægð,
hafið Jerúsalem í huga.
51 Vér höfum verið niðurlægðir,
höfum þurft að heyra háðsyrði.
Andlit vor roðnuðu af smán
því að framandi menn ruddust inn
í hinar helgu vistarverur í húsi Drottins.
52 Sjá, þeir dagar koma,
segir Drottinn,
þegar ég mun vitja hjáguða Babýlonar
og alls staðar í landinu munu særðir menn liggja og stynja.
53 Þó að Babýlon gnæfi við himin
og styrki ókleif vígi sín
munu eyðendur frá mér ryðjast inn í hana,
segir Drottinn.
54 Heyrið. Neyðaróp berst frá Babýlon,
ógurlegt brak frá landi Kaldea.
55 Drottinn leggur Babýlon í eyði,
lætur glymjandann frá henni þagna
þó að öldur hans drynji
eins og mikið vatn og niðurinn belji.
56 Já, hann kemur gegn henni,
eyðandinn heldur gegn Babýlon,
kappar hennar verða gripnir,
bogar þeirra brotnir,
því að Drottinn er Guð sem launar,
hann endurgeldur að fullu.
57 Ég geri leiðtoga og spekinga Babýlonar drukkna
ásamt landstjórum hennar, herforingjum og stríðshetjum.
Þeir skulu falla í ævarandi svefn
og þeir munu ekki vakna framar, segir konungurinn.
Drottinn hersveitanna er nafn hans.

Um borgarmúrinn

58 Svo segir Drottinn hersveitanna:
Víður borgarmúr Babýlonar
verður jafnaður við jörðu.
Há borgarhliðin
verða brennd til ösku.
Þannig vinna þjóðir fyrir gýg,
fólk þrælar sér út fyrir eldsmat.