1 Davíðssálmur.
2 Lofa þú Drottin, sála mín,
og allt sem í mér er, hans heilaga nafn;
2 lofa þú Drottin, sála mín,
og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar,
læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni,
krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum,
þú yngist upp sem örninn.
6 Drottinn fremur réttlæti
og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gerði Móse vegu sína kunna
og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur
og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefur eigi breytt við oss eftir syndum vorum
og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðinni,
svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.