36 Þess vegna segir Drottinn:
Ég sæki sjálfur mál þitt og hefni þín.
Ég þurrka upp Babelfljót,
læt lindir þess þorna.
37 Babýlon verður að grjóthrúgu,
hún verður bústaður sjakala,
staður sem vekur andstyggð og fyrirlitningu,
þar sem enginn á heima.
38 Þeir reka upp öskur eins og ljón,
allir í einu, urra eins og ljónshvolpar.
39 Þegar þeir verða gráðugir geri ég þeim veislu,
geri þá drukkna svo að þeir líði út af,
því næst sofna þeir ævarandi svefni
og vakna ekki aftur, segir Drottinn.
40 Ég leiði þá til slátrunar eins og lömb,
eins og hrúta og geithafra.

Háðkvæði um Babýlon

41 Æ, Sesak [ var tekin, unnin,
prýði allrar jarðar.
Æ, Babýlon varð til skammar
meðal framandi þjóða.
42 Hafið gekk yfir Babýlon,
drynjandi bylgjum þess skolaði yfir hana.
43 Borgir hennar urðu auðn,
skrælnað land og eyðimörk,
land þar sem enginn býr
og enginn maður fer um.

Gegn Bel og múrum borgarinnar

44 Ég vitja Bels í Babýlon
og ríf bráðina úr gini hans,
þjóðirnar munu ekki streyma til hans framar.
Borgarmúr Babýlonar mun einnig hrynja.
45 Þjóð mín, farðu burt úr þessari borg.
Bjargið lífi yðar, hver um sig,
undan bálandi heift Drottins.
46 Missið ekki kjarkinn
og hræðist ekki orðróminn
sem berst um landið.
Þetta ár gengur þessi orðrómur, næsta ár annar.
Ofbeldi ríkir í landinu
og valdsmennirnir standa hver gegn öðrum.

Falli Babýlonar fagnað

47 Þeir dagar koma
að ég mun vitja hjáguða Babýlonar.
Allt landið verður niðurlægt.
Allir hinir vegnu munu liggja inni í borginni.
48 Himinn og jörð og allt sem í þeim er
mun fagna yfir Babýlon
þegar eyðendurnir koma gegn henni úr norðri,
segir Drottinn.

Hefnt fyrir Síon

49 Fall Babýlonar er ákveðið
vegna þeirra sem fallnir eru af Ísrael
eins og vegnir menn um allan heim
féllu fyrir Babýlon.