Babýlon fellur

27 Reisið gunnfána á jörðinni,
þeytið hafurshornið meðal þjóðanna.
Vígið þjóðir til stríðs gegn Babýlon,
kallið saman konungsríki gegn henni,
Ararat, Minní og Askenas.
Skipið foringja gegn henni.
Sendið út stríðshesta líka loðnum engisprettum.
28 Vígið þjóðir til stríðs gegn Babýlon,
konunga Medíu, landstjóra hennar og höfðingja,
allt ríki hennar.
29 Jörðin nötrar og skelfur
því að fyrirætlanir Drottins gegn Babýlon stóðust
með því að hann gerði land Babýlonar
að óbyggðri eyðimörk.
30 Kappar Babýlonar hafa hætt að berjast,
þeir híma í varnarvirkjunum,
kraftur þeirra er þorrinn,
þeir eru orðnir sem konur.
Hús Babýlonar eru brunnin,
slagbrandar hliðanna brotnir.
31 Hlaupari tekur við af hlaupara,
boðberi af boðbera,
til að tilkynna konunginum í Babýlon
að borg hans sé fallin endanna á milli,
32 vöðin yfir fljótið tekin,
bátarnir brenndir,
hermennirnir skelfdir.
33 Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels:
Dóttirin Babýlon líkist þreskivelli á þreskitíð,
innan skamms kemur uppskerutími hennar.

Hefnd Drottins

34 Nebúkadresar, konungur í Babýlon,
hefur gleypt mig, etið mig upp.
Hann hefur stjakað mér til hliðar
eins og tæmdu íláti.
Hann hefur rifið mig í sig eins og dreki,
hann fyllti kviðinn með bestu bitunum
og kastaði síðan upp.
35 „Sú kúgun og það ofbeldi, sem ég hef þolað,
komi yfir Babýlon,“
skulu íbúarnir í Síon segja;
„komi blóð mitt yfir íbúa Kaldeu,“
skal Jerúsalem segja.