15Hann skapaði jörðina með krafti sínum,
grundvallaði heiminn með speki sinni
og þandi út himininn með þekkingu sinni.
16Þegar hann lætur rödd sína þruma
heyrist vatnaniður í himninum,
hann sendir ský upp frá endimörkum jarðar
og lætur eldingar leiftra í regninu,
hann hleypir vindinum út úr geymslum hans.
17Sérhver maður verður undrandi og skilningsvana,
hver gullsmiður skammast sín fyrir guðamyndir sínar
því að myndirnar, sem hann steypir, eru blekking,
í þeim er enginn lífsandi.
18Þær eru aðeins vindgustur, hlægilegar og einskis nýtar.
Þegar tími reikningsskila rennur upp farast þær.
19Hann sem er hlutskipti Jakobs líkist þeim ekki
því að hann hefur skapað allt
og Ísrael er hans eigin ættkvísl.
Drottinn hersveitanna er nafn hans.

Vopn Drottins

20Þú ert kylfa mín,
þú ert vopn mitt.
Með þér mola ég þjóðir,
legg konungsríki í rúst.
21Með þér mola ég hest og riddara,
með þér mola ég vopn og vagnstjóra.
22 Með þér mola ég karl og konu,
með þér mola ég öldung og ungling,
með þér mola ég pilt og stúlku.
23 Með þér mola ég hirði og hjörð hans,
með þér mola ég bónda og sameyki hans,
með þér mola ég landstjóra og höfðingja.
24 Nú endurgeld ég Babýlon
og öllum íbúum Kaldeu frammi fyrir yður
öll þau níðingsverk sem þeir unnu gegn Síon,
segir Drottinn.
25 Nú held ég gegn þér,
fjall tortímingarinnar
sem lagðir allan heiminn í eyði,
segir Drottinn.
Ég rétti út hönd mína gegn þér,
ég geri þig að grjóthrúgu
og kasta þér í eldsofninn.
26 Til þín verður hvorki sóttur hornsteinn né undirstöðusteinn
því að þú verður auðn um alla framtíð,
segir Drottinn.