Sigur Drottins

1 Svo segir Drottinn:
Nú vek ég eyðandi storm gegn Babýlon og Kaldeum,
2ég sendi vinsara til Babýlonar
til að varpa þeim upp svo að hismið fjúki burt.
Þeir eiga að feykja burt ríkinu og eyða landi Babýlonar
þegar þeir setjast um hana úr öllum áttum
á óheilladeginum.
3Sá sem bendir boga verður ekki þróttlaus,
hinn brynjaði mun ekki þreytast.
Þyrmið ekki æskumönnum hennar,
helgið allan her hennar banni.
4Þeir munu liggja vegnir í landi Kaldea,
reknir í gegn á strætum borgarinnar.
5Ísrael og Júda eru eigi ekkjur,
yfirgefnar af Drottni hersveitanna,
þó að land þeirra sé fullt af synd
gegn Hinum heilaga í Ísrael.
6Flýið frá Babýlon. Bjargið lífi yðar, hver um sig,
svo að yður verði ekki tortímt
þegar henni verður refsað
því að tími er kominn fyrir hefnd Drottins.
Nú geldur hann Babýlon eftir verkum hennar.
7Babýlon var gullbikar í hendi Drottins,
sem gerði alla veröldina drukkna.
Þjóðirnar drukku vínið úr honum
og létu sem óðar væru.
8Skyndilega féll Babýlon og brotnaði í smátt.
Kveinið yfir henni.
Sækið smyrsl við sári hennar,
ef til vill er hægt að græða það.
9Vér vildum lækna Babýlon
en hún var ólæknandi.
Yfirgefið hana. Vér höldum hver til síns lands.
Refsidómurinn yfir henni nær til himins,
hann gnæfir upp í skýin.
10Drottinn hefur birt réttlátan málstað vorn.
Komið, vér skulum segja frá því á Síon
sem Drottinn, Guð vor, hefur afrekað.
11Yddið örvarnar, grípið skildina.
Drottinn hefur blásið kjarki í brjóst konunganna í Medíu
því að hann ætlar að leggja Babýlon í rúst.
Það er hefnd Drottins,
hefnd fyrir musteri hans.
12Hefjið gunnfána gegn múrum Babýlonar.
Styrkið varðsveitina.
Komið fyrir framvörðum.
Leggist í launsátur.
Drottinn hefur ákveðið þetta
og stendur við hótun sína
gegn Babýloníumönnum.
13Þú sem býrð við vötnin miklu,
auðug að fjársjóðum,
endadægur þitt er upp runnið,
síðasta alin lífsþráðar þíns af skorin.
14Drottinn hersveitanna hefur svarið við sjálfan sig:
Þó að ég fyllti þig mannmergð eins og engisprettusveim
verður heróp hrópað gegn þér.